Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Andra Ingasyni, sérfræðingi í fyrirtækjaráðgjöf hjá Arctica Finance sem sá um útboðið, að eftirspurnin hafi verið umfram væntingar. „Þetta er virkilega jákvætt og sýnir að fjárfestar, bæði almennir fjárfestar og fagfjárfestar, vilja taka þátt í þessari vegferð með okkur,“ er haft eftir honum.
Stefnt var að því að safna fjórum milljörðum króna. Stjórn Play fundaði í gærkvöldi til að fara yfir áskriftirnar. 6,7 milljarðar bárust í gegnum áskriftarleið A og rúmlega 27 milljarðar í gegnum áskriftarleið B.
Morgunblaðið hefur eftir Kristjáni Sigurjónssyni, ritstjóra ferðavefsins Túrista, að eftirspurnin sé áhugaverð í ljósi þess að félagið sé rétt farið af stað með rekstur. Spurning sé hvort þetta byggist á væntingum um að rekstur þess gangi vel eða hvort reiknað sé með að rekstur Icelandair komist ekki á sama skrið og áður var.