Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, er ekki sáttur með tilkynninguna sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, birti á Twitter-síðu sinni í gær.
„Í grænum fréttum er þetta helst: Borgarráð samþykkti í morgun samninga við þrjú stærstu olíufélögin um þriðjungs fækkun bensínstöðva í Reykjavík á næstu árum. Í staðinn koma íbúðir og hverfistengd þjónusta. Dælum fækkar um 33%,“ skrifaði Dagur og birti síðan yfirlit yfir þær bensínstöðvar sem fengu að fjúka.
Ein þessara stöðva er N1 í Skógarseli en þar á að koma íbúðabyggð og mögulega verður matvöruverslun á jarðhæð. Sigmundur er ekki sáttur með þetta.
„Meðal bensínstöðvanna er Essó í Skógarseli sem hefur lengi verið mikilvægur viðkomustaður í hverfinu og aldrei gert neinum mein. Ég vann þar í mörg ár á sumrin og með skóla (fyrst sem starfsmaður á plani og loks sem starfsmaður í verslun),“ skrifar Sigmundur.
Hann segir þetta vera liður í því að hrekja fjölskyldubílinn af götum borgarinnar.