Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að næstverstu staðirnir séu Tartu í Eistlandi, Helsinki og Espoo í Finnlandi og Osló í Noregi með 307 kílómetra meðaldrægi. Ástæðan fyrir þessu stutta drægi hér á landi er hitastigið en meðalhitinn er aðeins 4,3 gráður en þegar kalt er í veðri nota bílarnir meira rafmagn til að hita sig.
Mesta drægið var í Sydney í Ástralíu, Los Angeles í Bandaríkjunum og Aþenu í Grikklandi eða 351 kílómetra meðaldrægi og allt að 450 kílómetra drægi.
Fréttablaðið hefur eftir Sigurði Friðleifssyni, framkvæmdastjóra Orkuseturs, að þrátt fyrir þetta séu Reykjavík og Ísland mjög góður staður fyrir rafbílaeign. „Við búum í borgríki sem er einstakt í heiminum. Ísland er eina landið þar sem yfir 80 prósent búa á höfuðborgarsvæði. Þörfin til að fara mjög langt er því takmörkuð,“ er haft eftir honum.
Hann sagði að uppsetning hraðhleðslu- og millihleðslustöðva hafi gengið vel á landsvísu en öðru máli gegni um kortlagningu þessara stöðva því ekkert gott og aðgengilegt kort sé til yfir þær. Þetta valdi því að fólk sé óvisst um hvar þær eru og hvort það komist á leiðarenda á rafbíl án bensíns- eða dísilgeymis.