fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Hildur: „Ætlar þú að drepa mig fyrir framan börnin?“

„Þetta er lífsreynsla sem enginn á að upplifa. Þess vegna segi ég þessa sögu“ – „Pabbi ber mömmu mína.“ – Kerfið styður ofbeldismanninn – Fékk neyðarhnapp en ekki nálgunarbann

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 9. mars 2018 15:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þú ert 22 ára. Þú stendur í röð fyrir utan Hótel Ísland ásamt vinkonum þínum. Sumri er tekið að halla og það er aðeins svalt. Sólin rúllar eftir sjóndeildarhringnum og brátt slökkvir nótt dag. Ein vinsælasta hljómsveit landsins, Sálin hans Jóns míns mun fljótlega stíga á svið.

Árið er 1997.

Þú veist ekki að í kvöld mun líf þitt breytast til frambúðar. Þið farið inn hlæjandi og fullar tilhlökkunar. Svo kemur þú auga á hann. Ungan og ljóshærðan. Þú veist ekki að á þessari stundu ertu að horfa á manninn sem verður sambýlismaður þinn. Faðir barnanna þinna. Þið verðið saman í tvo áratugi. Börnin verða þrjú, ljósgeislar í lífi þínu og foreldra þinna. Þú átt eftir að verða svo ástfangin. Þú munt aldrei trúa neinu slæmu upp á hann.

Þar til hann fer að berja þig.

Og þá hrynur heimurinn. Þú finnur líkamlegan sársauka en það er sálin sem rotast og ástin deyr.

Undir hvítri skyrtunni er svört brynja full af myrkri. Þú veist ekki á þessari stundu, þar sem þú stendur á dansgólfinu á Hótel Íslandi, að þessi maður á eftir að gera þig skelfingu lostna. Þér hefði aldrei dottið í hug að hann myndi elta þig með hníf á lofti eins og í hryllingsmynd.

Þegar þér loksins, mörgum, mörgum árum síðar tekst að fylla þig hugrekki til að flýja með börnin bregst kerfið okkar þér. Kerfið sem á að passa upp á þig. Þremur árum síðar er kerfið enn að bregðast þér.

Þú færð ekki nálgunarbann, þrátt fyrir að bera neyðarhnapp. Þremur árum eftir flóttann mikla á enn eftir að skipta eignum ykkar þrátt fyrir að dómstólar hafi dæmt þér í vil. Hann ferðast um heiminn, leikur sér og tefur málið með lögfræðingum.

Eftir að þú skilur við manninn á hann eftir að verða þjóðþekktur þegar hann er kærður og grunaður um að beita aðra konu skelfilegu ofbeldi í Texas. Er hann kallaður Texas-hrottinn í fjölmiðlum. Það samband stendur stutt yfir. Sú kona fær nálgunarbann, ekki þú. Hún fær bætur, ekki þú. Þú missir næstum trúna á réttlætið en neitar svo að gefast upp. Þú ákveður að stíga fram og segja sögu þína.

Fyrir þig og fyrir aðrar konur.

Lífið snerist um skíði

„Ekkert skipti var samt jafn slæmt og kvöldið sem hann reyndi að kyrkja mig. Ég man það eins og það hafi gerst í gær. Hvernig ég barðist á móti, sá brjálæðisglampann í augunum á honum, hélt að þetta væri mitt síðasta. Ég hugsaði til ykkar, að þið yrðuð móðurlausar. Ætli það hafi ekki gefið mér þann fítonskraft sem ég fékk til að losa hann ofan af mér.“

Þetta skrifaði Hildur Þorsteinsdóttir meðal annars í löngu átakanlegu bréfi til barna sinna eftir að hún hafði flúið Magnús Jónsson, sambýlismann sinn til sautján ára. Hildur kveðst hafa mátt þola skelfilegt, andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi af hálfu Magnúsar.

Þegar Hildur kynntist Magnúsi Jónssyni, sem oft er kenndur við Atorku, var hún búsett á Akureyri ásamt foreldrum sínum og systkinum. Magnús hefur verið fastagestur á síðum fjölmiðla eftir að hann var handtekinn í Texas, grunaður um að beita þáverandi kærustu sína ofbeldi.

Faðir Hildar er Þorsteinn Vilhelmsson sem hefur verið umsvifamikill í íslensku viðskiptalífi en móðir hennar er Þóra Hildur Jónsdóttir. Foreldrar hennar lýsa henni sem glaðlyndu barni sem var hugfangið af skíðaíþróttinni. Hún var bæði í unglinga- og fullorðinslandsliðinu í íþróttinni þrátt fyrir ungan aldur. Blaðamaður hitti Hildi, Þorstein föður hennar og Laufeyju systur hennar á heimili foreldranna. Saga Hildar er átakanleg og varpar ljósi á meingallað kerfi sem bregst konum þegar þær þurfa hvað mest á hjálp að halda. Eftir að Hildi hafði loks tekist að öðlast kjark eftir sautján ára eldfimt samband hélt ofbeldið áfram, nema nú var það kerfið sem braut á henni með grófum hætti.

„Þegar ég kynntist Magnúsi var ég búin að vera erlendis í skíðaskóla þar sem ég bæði keppti og æfði af kappi. Ég meiddist sem varð til þess að ég lagði skíðin á hilluna. Líf mitt hafði snúist um skíði og vonbrigðin voru mikil. Á þessum tímapunkti fékk ég upp í kok og fór ekki á skíði aftur fyrr en níu árum síðar.“

Opinberaði sig fyrir fjölskyldunni – Þessi kafli í bláu aukaboxi

Það var í júní 2010 sem Magnús opinberaði sig fyrir tengdafjölskyldunni. Foreldrar Hildar og börn þeirra og makar höfðu ákveðið að eiga glaðan dag í sumarbústað norður í Eyjafirði. Hlýtt var í veðri, krakkarnir voru í leikjum og til stóð að grilla ofan í liðið.

Segir Laufey að Magnús hafi sparkað í barnakerru, en í henni lá eins árs gamall sonur Hildar og Magnúsar þar sem börnin voru að horfa á sjónvarpið, sem hentist utan í vegg. Varð uppi fótur og fit þegar fólkið reyndi að róa Magnús niður.

„Hann reyndi að rífa af mér lyklana og ætlaði að keyra í bæinn. Ég neitaði að láta hann hafa þá þar sem hann var drukkinn. Þá braut hann hliðarspegil í bræði sinni á bílnum okkar,“ segir Hildur. Þorsteinn faðir hennar bætir við að hann hafi haft samband við yfirvöld en þegar lögregla kom á svæðið var Magnús búinn að panta leigubíl til að aka honum Reykjavíkur en það tekur minnst fjóra klukkutíma að keyra í bæinn. Eftir sat fjölskyldan í áfalli.

„Þarna opinberaði hann sig fyrir fjölskyldunni,“ segir Laufey. „Þegar hann verður reiður, augun svört og hann umbreytist. Í því ástandi er Magnús til alls vís,“ bætir hún við.

„Ég fékk sjálf bara taugaáfall,“ segir Hildur. „Ég sagði þarna frá hluta af því sem hafði átt sér stað í sambandinu,“ segir hún.

„Hann einangraði þig samt. Við misstum nánast af þér í fjögur ár,“ segir Þorsteinn, faðir hennar.

AUKABOX úr bréfi til dætra:

„Ég átta mig ekki á því fyrr en nýlega að líf mitt snerist að mestu leyti um að halda honum góðum og að reyna að gera hann hamingjusaman og glaðan. Það var mikil vinna fólgin í því.“

Tveimur árum yngri og sambandið þróaðist hratt

Hildur kynntist Magnúsi, eins og fyrr segir, á Hótel Íslandi. Hún hafði sett stefnuna á Benidorm daginn eftir ásamt vinkvennahópnum. Eftir að Hildur kom heim frá Benidorm tóku hún og Magnús upp þráðinn. Hildur var enn búsett á Akureyri. Unga parinu til happs var hörð samkeppni í innanlandsflugi og oft hægt að komast á milli landshluta fyrir lítinn pening. Það nýttu Hildur og Magnús sér óspart. Sambandið þróaðist hratt og dvaldi Magnús hjá fjölskyldu Hildar á Akureyri um áramótin 1997/1998. Hildur segir að Magnús hafi komið vel fram við hana í upphafi sambandsins.

„Þegar ég flutti suður til Magnúsar bjuggum við fyrstu mánuðina hjá móður hans og systrum en foreldrar Magnúsar höfðu skilið ári áður. Magnús hafði klárað Verzló um vorið og var nýbyrjaður í viðskiptafræði þegar við kynntumst. Samhliða náminu fékk hann vinnu í Kaupþingi. Þar áskotnaðist honum fleiri verkefni og hætti hann í háskólanum eftir eitt eða tvö ár og fór að vinna,“ segir Hildur.

Parið keypti sína fyrstu íbúð haustið 1998. Tveimur árum síðar, í febrúar árið 2000, kom frumburðurinn í heiminn.

Leiðinlegur undir áhrifum

Hildur og Magnús eignuðust annað barn þremur árum síðar. Aðspurð hvort Magnús hafi beitt hana ofbeldi á þessum árum svarar Hildur að líkamlegt ofbeldi hafi ekki átt sér stað en margir orðið vitni að grimmu andlegu ofbeldi.

„Ég áttaði mig á hversu sjúkt sambandið var eftir að ég fór frá honum. Ég gerði mér ekki grein fyrir öllu ofbeldinu og þar sem ég var brotin niður smám saman áttaði ég mig ekki á að hlutir sem mér fannst eðlilegir þá voru í raun helsjúkir. Hann byrjaði ekki á að berja mig en hann braut mig smám saman niður. Dæmi um minni atriði voru að ef ég bauð stelpunum upp á pítsu langaði hann kannski í naut og þá var hvort tveggja eldað,“ segir Hildur og kveðst vera hætt að geta eldað kjöt með sósu og kartöflum. „Ef hann vildi það sama og við í matinn var dansað í kringum hann af gleði af meðvirkni. Síðan kom það fyrir að ég eldaði handa honum mat sem hann langaði í og annað fyrir mig og krakkana. Stundum þótti honum það ekki gott sem ég bauð upp á, svo ég fór aftur í eldhúsið að útbúa nýjan rétt fyrir hann. Síðan borðaði ég minn mat á eftir, kaldan. Hann varð að hafa stjórnina, í stóru og smáu.“

Hildur kveðst hafa orðið snemma meðvirk og fest í neti ofbeldismanns sem hafi brotið hana markvisst niður „Hin ljóta framkoma byrjaði rólega og vatt upp á sig með árunum og endaði í hrottalegu ofbeldi þar sem ég var barin sundur og saman fyrir framan börnin og ógnað með vopnum. Ég hélt að ég myndi ekki lifa þetta samband af.“

Hildur telur að sambandið hafi staðið yfir í tvö ár þegar Magnús lagði fyrst á hana hendur.

„Ég var sár og reið. Hann byrjaði strax að segja að þetta myndi aldrei gerast aftur og hvað honum liði illa.“ Til að reyna bæta fyrir ofbeldið gaf Magnús Hildi gjafir, armbandsúr og skartgripi. Og á næstu árum stækkaði skartgripasafnið ört, en börnin fengu leikföng af öllum stærðum og gerðum í staðinn fyrir það sem þau máttu horfa upp á á heimilinu.

Hugsaðir þú um að fara á þessum tímapunkti?

„Í gegnum árin hótaði hann mér. Hann kvaðst þekkja alla bestu lögfræðingana á landinu. Undir niðri vissi ég að það myndi aldrei gerast en á móti kom að þá var hann valdamikill og hvað ef honum tækist ætlunarverkið og næði af mér börnunum. Þetta er fjarstæðukennt, en mitt í þessum aðstæðum og niðurbroti nær ofbeldismaðurinn tökum á þér og þú trúir ótrúlegustu hlutum.“

Hildur bætir við: „Hann sagði: Ég mun segja öllum að þú sért geðveik. Það mun enginn trúa þér.“ Á hverjum morgni var hann að biðjast afsökunar á hegðun sinni og orðið fyrirgefðu varð á endanum innihaldslaust.“

Andlegt ofbeldi var mikið að sögn Hildar.

„Á hverjum einasta degi kallaði hann mig ljótum nöfnum, hóru, tussu, lygara og illa innrætta,“ segir Hildur: „Þetta er það sem ég man eftir. Þetta var á hverjum degi, frá manninum sem á að elska mig og virða, en ég var kölluð andskotans tussa. Ég var kölluð helvítis hóra. Það mátti ég þola daglega síðustu árin.“

Hélt vöku fyrir fjölskyldunni

Haustið 2001 hóf Magnús störf fyrir tengdaföður sinn og sá um fyrirtækið Ránarborg. Það varð síðar að Afli í samstarfi við Landsbankann og MP verðbréf. Seinna sameinaðist Afl Atorku og átti það félag eftir að verða áberandi í íslensku viðskiptalífi.

„Þegar ég réð hann hafði hann verið aðstoðarforstjóri Straums,“ segir Þorsteinn. „Hann staldraði stutt við þar, í tvo þrjá mánuði. Hann var rekinn frá Straumi og Kaupþingi en það fékk ég ekki að vita fyrr en eftir skilnað þeirra árið 2015. Þá fóru menn að tjá sig við mig.“

Hildur segir að á sama tíma og Magnús hafi halað inn peninga hafi áfengisneyslan og ofbeldið aukist. Þá hafi Magnús drukkið mikið einn heima og haldið vöku fyrir henni og börnunum með tónlist sem hafi verið spiluð nánast á hæsta styrk.

„Hann hlustaði einn, á allt frá rokki og poppi niður í rólega og rómantíska tónlist, stundum sama lagið aftur og aftur. Ef ég fór fram og lækkaði brjálaðist hann og hækkaði aftur. Ég tók stelpurnar upp í til mín og svo lá ég og hélt fyrir eyrun á Söru svo hún gæti sofið. Í nokkur ár gat ég ekki hugsað mér að hlusta á tónlist því það kveikti vondar minningar.“

Hildur segir að tónlistartímabilið hafi staðið yfir í nokkur ár en þegar því lauk tók ekki betra við að hennar sögn.

„Hann elti mig inn í rúm á kvöldin. Oft byrjaði hann á að láta renna í bað en baðherbergi var inn af hjónaherberginu. Þá kveikti hann á sjónvarpinu og lagðist upp í rúm með áfengisflösku. Síðan potaði hann í öxlina á mér til að spyrja hvort ég væri vakandi og það gerði hann hvað eftir annað og hélt mér vakandi í marga klukkutíma. Ef ég flúði inn til barnanna kom hann og barði á dyrnar þar til ég kom aftur inn í hjónaherbergi til að hann vekti ekki börnin. Hann drakk stundum 4–6 flöskur af léttvíni yfir nóttina og jafnvel nokkrar bjórdósir með. Þetta stóð yfir í sjö til átta ár. Eftirköstin af þessu eru að það má ekki pota í mig, þá rýk ég upp, eins er ég alltaf að leggja mig. Þá þarf ég stöðugt að reyna næla mér í auka blund, ef ég skyldi ekki fá nægan svefn,“ segir Hildur og telur að líkamleg eftirköst vegna þessa ofbeldis sé vanhæfur skjaldkirtill en undir það síðasta í sambandinu var Hildur algjörlega orkulaus.

AUKABOX – bréf til dætra

„Ég nennti ekki að fá hann upp á móti mér. Það voru ófá skiptin sem ég grét undan honum á nóttunni að reyna að halda Söru sofandi og hélt jafnvel fyrir eyrun á henni svo að hún gæti sofið og hugsaði með mér að við ættum þetta ekki skilið. Ég fór svo auðvitað á fætur með ykkur á morgnana undantekningarlaust alveg svefnlaus meðan hann svaf úr sér áfengið fram á dag.“

Óttast um líf sitt

Magnús og Hildur fóru reglulega til útlanda með börnin. Eftir eina slíka ferð til New York í kringum 2006 óttaðist Hildur um líf sitt. Fjölskyldan hafði lent í Keflavík klukkan sex um morguninn. Þegar heim var komið segir Hildur að Magnús hafi viljað slá upp eins manns samkvæmi í húsinu með tónlist og áfengi við hönd. Hún og börnin vildu hvíla lúin bein eftir langt flug.

„Magnús hafði drukkið í fluginu alla leiðina heim. Hann kom heim og setti útvarpið í botn. Ég sagði að þetta væri ekki í boði og slökkti á útvarpinu. Þá sá ég hann allt í einu koma með risastóran hníf. Í húsinu okkar var langur gangur, ég hljóp á undan honum fram ganginn skelfingu lostin. Þegar ég kom inn í anddyri og sá stelpurnar náfölar af hræðslu sneri ég mér við og spurði: „Ætlar þú að drepa mig hér fyrir framan börnin?“ Þá lagði hann hnífinn niður og sagði: „Guð minn góður, hvað er ég að gera.“ Þá var hann í svo mikilli bræði að hann áttaði sig ekki á alvarleika málsins. Ef þær hefðu ekki verið þarna hefði hann örugglega stungið mig.“

Alvarlegt atvik í New York og kynferðislegt ofbeldi

Þegar Hildur var spurð hvort hún væri hamingjusöm var svarið alltaf það sama. Lífið var gott og hún hélt ástandinu heima fyrir leyndu. Þegar þau voru erlendis og Hildur var óttaslegin og vildi hringja heim segir hún Magnús hafa brotið síma hennar. Það hafi gerst ítrekað. Sú frásögn rímar við frásögn annarrar konu, Hönnu Kristínar Skaptadóttur, sem Magnús átti í stuttu sambandi við eftir skilnað Hildar og Magnúsar. „Það gerðist alltaf eitthvað í hverri ferð. Ég veit ekki hvað hann braut marga síma.“

Varst þú oft hrædd?

„Já, erfiðasta atvikið var líklega í New York en það gerðist úti á götu fyrir framan hóp af fólki. Við höfðum farið út að borða. Magnús var ofurölvi og á leiðinni heim hafði hann farið inn á bar að pissa og kom út með bjórglas. Sonur þeirra var á fyrsta ári og bar Hildur hann í fanginu. Þá sagði Sunna greyið, sem var bara sex ára: „Pabbi þarftu að drekka meira? Og hún var eitthvað að skammast í pabba sínum og skyndilega á Broadway „down town“ New York og það var mikil umferð á þessum tíma, varð honum nóg boðið yfir að stelpan væri að tuða yfir drykkjunni. Hann tók hana upp og hristi hana,“ segir Hildur og bætir við að á sama augnabliki hafi bílstjórar stöðvað bifreiðir sínar og fólk kallað að einhver ætti að óska eftir aðstoð lögreglu.

„Þetta var svo yfirþyrmandi og meðvirknin tók fram fyrir hendurnar á mér. Ég hrópaði á móti að það væri allt í lagi, en auðvitað hefði ég átt að láta lögregluna hirða hann.“

Í ferðinni í New York var sonur þeirra aðeins tveggja mánaða. Eftir að vegfarendur skiptu sér af héldu Magnús og Hildur upp á hótel. Segir Hildur að stúlkurnar þeirra tvær hafi grátbeðið föður sinn að beita ekki móður þeirra ofbeldi.

„Þar trylltist Magnús aftur og hrifsaði drenginn úr fangi mínu og fór með hann eins og dúkku. Ég náði honum loks af honum en þorði ekki að sofna því ég var hrædd um að hann myndi taka barnið aftur af mér. Daginn eftir tók það sama við, að biðjast afsökunar,“ segir Hildur. Fjölskyldan ferðaðist töluvert en Hildur kveðst yfirleitt hafa komið úrvinda heim.

„Í öllum fríum átti ég að vaka með honum fram á morgun til að halda honum félagsskap og svo átti ég að vakna með börnunum.“

Þá segir Hildur:

„Oft þröngvaði hann sér á mig á nóttunni þegar ég var að reyna að sofa.“ Hún bætir við: „Hann fór inn í mig aftan frá, ofan á drykkjuna, pikkið og potið. Ég var löngu hætt að reyna að mótmæla, lá bara kyrr a meðan hann lauk sér af.“

AUKABOX – bréf til dætra

„Þegar ég slökkti á tónlistinni og sagði honum að það yrði engin tónlist spiluð þennan morguninn að þið þyrftuð að fá að leggja ykkur trompaðist hann, sótti eldhúshníf og hljóp á eftir mér út ganginn inn í forstofu og hótaði að drepa mig. Ef þið hefðuð ekki staðið í anddyrinu grátandi og hræddar hefði hann kannski gengið alla leið, hver veit? Ég væri þá ekki hér.“

Með hnefann á lofti

Í London, fyrir nærri tíu árum, sakar Hildur Magnús um að hafa ráðist á hana með offorsi. Hann hafi reynt að kyrkja hana. Starfsmannafélag Atorku var þá í ferð í London.

„Þetta voru svo mikil átök og ég var að missa andann. Ég náði að draga hnén upp undir mig og þrýsta honum frá mér,“ segir Hildur sem hringdi svo strax í móttöku hótelsins.

„Þegar starfsmaðurinn kom þá stóð Magnús á bak við hurðina með hnefann á lofti. Ég sagði að allt væri í góðu lagi. Þá kom einnig meðvirknin upp í mér og ég hugsaði: „Guð, hvað mun fólk halda ef ég fer í annað herbergi og allt starfsfólkið hans Magnúsar heyrir af því.“

Þegar Hildur vaknaði svo um morguninn var hún sárkvalin. „Ég gat ekki hreyft mig og rétt náði að leggjast í bað. Ég var í sjúkraþjálfun í marga mánuði eftir árásina.“

Marin í Barcelona

Fjölskyldan bjó í Barcelona 2013 til 2014. Hildur segir að á þessu ári sem þau voru búsett á Spáni hafi hún oft á næturnar reynt að flýja í önnur herbergi til að fá svefn. „Hann mætti þá á dyrnar öskrandi og bankandi. Það endaði með að því ég gafst upp og færði mig inn í hjónaherbergi,“ segir Hildur og heldur áfram:

„Þar varð ég fyrir árás sem ég hélt að myndi binda enda á líf mitt. Hann réðst á mig fyrir framan börnin. Hann kýldi mig alla og sparkaði í mig og það blæddi úr eyranu á mér á eftir.

Hann reif úr mér eyrnalokk og var svo trylltur og reiður að hann beyglaði eyrnalokkana með handafli. Ég lá á gólfinu og hann sparkaði og kýldi og krakkarnir stóðu þarna rétt hjá. Sonur okkar hljóp inn í vinnuherbergi og faldi sig undir stól, enda bara fjögurra ára og skelfingu lostinn og í áfalli en Magnús hætti ekkert. Stelpurnar okkar voru 11 og 14 ára. Það er sárt til þess að vita að þær hafi séð föður sinn fara svona með mömmu þeirra. Á meðan ég lá á gólfinu og horfði á hann berja mig hugsaði ég að hann væri búinn að gúgla hvernig hann ætti að valda sem mestum skaða. Ég var hrikalega aum í kringum magasvæðið og óttaðist að ég væri með innvortis blæðingar. Þarna var ég hrædd um að deyja, að ég fengi aldrei að sjá börnin mín aftur.“

Kornið sem fyllti mælinn

Hvað varð til þess að þú fékkst alveg nóg?

„Við höfðum verið á Akureyri og leigt hús og ætluðum að vera á skíðum. Það átti að vera internet í húsinu en svo var ekki. Svo voru allir veitingastaðir á Akureyri ömurlegir og ekkert almennilegt var hægt að kaupa í matvörubúðum heldur til að elda. Þá meina ég gæðakjöt og svona gúrme mat. Það fannst Magnúsi ómögulegt og eftir nokkra daga fór hann til Reykjavíkur. Við vorum bara fegin. Við ætluðum að vera fram á sunnudag en á laugardag hafði hann samband og vildi að við kæmum heim. Við pökkuðum saman og héldum heim á leið í trylltum stormi. Það var Eurovision í sjónvarpinu og hann vildi hafa fjölskylduna hjá sér.“ Hildur og börnin komust heim við illan leik. Á móti þeim tók Magnús og það geisaði stormur í hausnum á honum.

„Hann var leiðinlegur yfir Eurovision og svo um nóttina barði hann mig illa. Þá hugsaði ég: Þetta er í síðasta skipti sem hann ber mig. Ég var margoft búin að segja við hann: „Það kemur að þeim tímapunkti að ég get ekki meira og þá fer ég“.“ Þetta kvöld brotnaði Hildur saman og lét foreldra sína vita að hún ætlaði loks að yfirgefa Magnús.

AUKABOX – bréf til dætra

„Ég flúði upp á efri hæðina með ykkur, hann elti og hótaði mér öllu illu og endaði svo á að beita mig ofbeldi, barði mig meðal annars með belti. Þið urðuð vitni að þessu, grétuð og voruð hræddar og grátbáðuð hann um að hætta.“

Leiðin heim

Hildur lá í rúminu og hvíslaði að dóttur sinni. „Þegar við vöknum í fyrramálið, farið þið í skólann og við komum ekki heim aftur.“ Hún treysti sér ekki til að fara þá um kvöldið. Taldi hún öruggi síns og barnanna vegna að best væri að yfirgefa Magnús um morguninn því hann var vanur að sofa til tvö þrjú um daginn. Léttirinn yfir að hafa tekið ákvörðunina var ólýsanlegur.

„Hún lét okkur vita að hún kæmi um morguninn þegar Magnús væri sofandi,“ segir Þorsteinn faðir Hildar. „Það voru bestu fréttir sem við höfðum fengið, sérstaklega fyrir konuna mína.“

Næstu vikur og mánuði reyndi Magnús ítrekað að fá Hildi aftur heim. Hildur bjó fyrsta mánuðinn hjá foreldrum sínum. Magnús hætti að drekka um tíma en hóf neyslu á ný þegar hann áttaði sig á að Hildur myndi standa föst á sínu. Það rann upp fyrir honum að sambandið var búið og fór Magnús aftur að drekka. Í kjölfarið fékk Hildur ótal ljót skilaboð en DV hefur afrit af samskiptum Hildar og Magnúsar sem staðfesta frásögn hennar.

„Ég ákvað strax að svara ekki skilaboðunum,“ segir Hildur. „Hann hótaði handrukkurum og Guð má vita hvað,“ segir Þorsteinn. „Ég sef með golfkylfu heima og sonur minn líka.

Ég hef kært ótal sinnum og oft talað við lögregluna út af ofbeldinu. Í hvert sinn sem mér bárust ný skilaboð fór ég með þau til lögreglunnar,“ segir Hildur.

Hvað gerði lögreglan?

„Það hefur ekkert komið út úr þessu, ekki neitt,“ segir Þorsteinn.

Þá sneri ég hann niður

„Hann hefur brotist inn hjá dóttur okkar, hann hefur gert húsbrot hjá annarri dóttur minni og reyndi að keyra hana niður í tvígang,“ segir Þorsteinn og rifjar upp atvik frá hausti 2016. „Fyrir það hefur hann verið kærður. Þetta eru nokkur dæmi af mörgum. Hann keyrði á bílinn minn og niður tré í næsta húsi. Hann var með son sinn í bílnum og stoppaði úti á miðri götu. Við reyndum að ná stráknum úr bílnum og hann var froðufellandi af reiði og ætlaði að berja Hildi,“ segir Þorsteinn. „Þá sneri ég hann niður. Ég sagði við lögguna að ég ætlaði ekki að horfa upp á hann berja hana. Hann væri búinn að berja hana nóg. En auðvitað kærði Magnús mig fyrir að brjóta gleraugun hans!“

Laufey, systir Hildar, lýsir þessum örlagaríka degi og greinir frá því að hún hafði boðið yngri dóttur Magnúsar og Hildar í mat. Stúlkan hafði áður búið í nokkrar vikur hjá Laufeyju og var það hugsað til að hún gæti breytt um umhverfi. Var Magnús að sögn Laufeyjar ósáttur við að stúlkan væri á heimili hennar.

„Hann tilkynnti að hann væri kominn að sækja stelpuna. Hann var froðufellandi svo ég taldi rétt að hafa samband við Hildi og maðurinn minn hringdi í hana og pabba sem óku undir eins hingað,“ segir Laufey. Þorsteinn bætir við að hús Laufeyjar sé í botnlanga og tók hann þá ákvörðun um að leggja þvert til að hindra að Magnús kæmist burt.

„Hann hafði áður framið húsbrot og ég ætlaði ekki að láta hann sleppa enn einu sinni áður en löggan kæmi á vettvang,“ segir Þorsteinn. Hildur bætir við: „Ég vissi að hann myndi ekki þola að vera lokaður inni, að hafa ekki völdin og komast ekki burt. Sonur okkar var í bílnum hjá honum og ég reyndi að ná honum út og koma honum inn í skjól.“

DV hefur undir höndum upptöku sem tekin var þennan dag. Þar má heyra Hildi hella sér yfir Magnús. Segir Hildur að hún hafi skyndilega öðlast kraft og loks þorað að segja meiningu sína af fullum þunga, eitthvað sem hún hafði ekki þorað áður. Á upptökunni má heyra Hildi hrópa að Magnús fái aldrei að berja hana aftur, að reyna að kyrja hana. Beita hana hrottalegu ofbeldi.

„Vá, hvað ég er ánægð með mig þarna,“ segir Hildur og brosir þar sem hún situr á móti blaðamanni og hlustar á upptökuna frá þessum örlagaríka degi. Síðan má heyra Hildi á upptökunni bresta í grát, en hrópa svo á ný.

AUKABOX – bréf til dætra

„Hann vissi nákvæmleg hvar hann myndi hitta á mína veikustu punkta og það eruð þið börnin mín. Að hóta því að ég myndi missa forræðið yfir ykkur, að hann myndi gera mig eignalausa, að allir myndu trúa honum og halda að ég væri veik á geði og óhæf um að hugsa um ykkur og þar fram eftir götunum. Ég trúði virkilega að hann væri svona máttugur og að hann myndi standa við orð sín.“

##Ekkert nálgunarbann

Þegar ástandið var sem verst óskaði Hildur oftar en einu sinni eftir nálgunarbanni. Ekki var orðið við því þrátt fyrir hótanir og að Magnús hafi komið óboðinn að heimili hennar. Það er einnig athyglisvert í ljósi þess að önnur kona, Hanna Kristín, sem Magnús er sakaður um að hafa beitt ofbeldi í Texas, fékk nálgunarbann á Magnús. Þá gekk Hildur lengi með neyðarhnapp á sér og varð að beita honum þegar henni fannst sér ógnað. Hildur segir Magnús hafa brotið rúðu hjá henni og troðið hlutum upp í púströr á bíl hennar. Þegar Hildur fékk fregnir af því var hún stödd hjá lögreglu til að leggja fram kæru á hendur Magnúsi út af öðru máli. Í símanum var nágranni hennar sem lýsti því hvernig Magnús hefði troðið fötum og plastflöskum í púströrið á bíl hennar.

„Ég fékk aldrei nálgunarbann! Það þótti ekki nóg að hann væri búinn að senda mér ógeðslega pósta sem ég sýndi þeim. Þeir töldu samt að ég þyrfti neyðarhnapp og ég gekk með hann á mér í sex mánuði. Ég var ekki búin að ná mér andlega á þessum tíma og taldi aldrei neitt nógu merkilegt til að ýta á neyðarhnappinn.“

Í eitt skipti lét Hildur verða af því að nota neyðarhnappinn, en það gerist eftir hvatningu frá vini. Það var barið harkalega á gluggann svo hann brotnaði. Þar var Magnús á ferð. Þegar rúðan brotnaði lagði hann á flótta.

„Hann ætlaði sér þá að koma inn, barði í rúðuna svo fast að hún brotnaði. Þarna var hann að sækja hluti sem hann taldi sig eiga en þegar rúðan brotnaði forðaði hann sér. Þarna voru börnin með honum í bílnum. Þegar ég ýtti á hnappinn var lögreglan fljót að bregðast við. Ég var oft búin að hringja á lögregluna, nágrannarnir líka. Hann hafði áður komið og verið með læti úti í garði.“

AUKABOX – bréf til dætra

„Ég veit að þið elskið pabbi ykkar ekkert síður en þið elskið mig og þið viljið að sjálfsögðu vera í sambandi við hann og ég ætla alls ekki að standa í vegi ykkar með það í framtíðinni ef honum tekst að halda sig á beinu brautinni. Þið bara verðið að skilja að ég er hrædd, hrædd um ykkur, ég treysti honum bara ekki 100% fyrir ykkur og hef aldrei gert, ekki einu sinni þegar við bjuggum saman, það vitið þið vel.“

Braust inn

Þótt nú sé að verða komið á fjórða ár frá því að Hildur flúði að heiman er Magnús enn skráður með lögheimili hjá henni. Það þýðir að hún fær ekki meðlag. Þá hefur Barnavernd haft afskipti af fjölskyldunni, og hófust þau áður en þau slitu sambandinu. Sonur Magnúsar og Hildar greindi kennara í skóla sínum frá því að pabbi hans hefði lamið mömmu.

„Það var í desember 2014 sem hann sagði frá því í skólanum: „Pabbi ber mömmu mína.“ Skólinn tilkynnti það til Barnaverndar. Magnús neitaði öllu og ég vildi ekki styggja hann. Þorði ekki að segja sannleikann. Þegar ég fór frá Magnúsi lagði ég fram kæru nokkrum dögum síðar og það fór til Barnaverndar, taldi ég að ég myndi fá þeirra stuðning til að láta börnin ekki til hans. Ég myndi aldrei vilja hindra að börnin heimsæktu föður sinn og ég hef aldrei gert slíkt en þarna átti Barnavernd að taka út heimilið og meta hvort hann væri hæfur til að hafa börnin hjá sér miðað við okkar sögu.“

Laufey tekur undir það en hún kveðst hafa farið í ófáar ferðir með Hildi systur sinni með gögn til Barnaverndar.

„Magnús var búinn að láta þau horfa upp á alls konar viðbjóð en hjá Barnavernd var viðkvæðið alltaf að börnunum skyldi leyft að fara,“ segir Laufey. „Barnavernd brást mánuð eftir mánuð og lagði það í hendur systur minnar, sem var að koma úr 17 ára ofbeldissambandi, að meta hvort hún treysti Magnúsi til að hafa börnin. Þá var það líka lagt í hendur barnanna að spyrja þau hvort þau vildu fara til pabba síns. Þetta eru galin vinnubrögð. Þarna átti Barnavernd að skoða heimilið en ekki spyrja fólk sem var rétt að taka sín fyrstu skref í átt að bata,“ segir Laufey

„Ég fékk ekki stuðning til að koma í veg fyrir að þau yrðu send aftur á stríðssvæðið,“ segir Hildur. „Ég fékk heldur ekki nálgunarbann en ég átti að ganga með öryggishnapp og á sama tíma átti ég að senda börnin til hans. Það er ekki hægt að fá rétta útkomu út úr þessu dæmi.“

##Dóttir vitnar um ofbeldi

„Hann varð brjálaður þegar hann áttaði sig á að krakkarnir voru að fara í Barnahús til að vitna um ofbeldið á heimilinu,“ segir Hildur um það þegar Magnús uppgötvaði að Barnavernd væri að skoða þeirra mál eftir skilnaðinn. Hildur furðar sig á að alltaf séu börnin dregin í vitnastúku um mál foreldra sinna. „Það hafa verið mörg vitni að andlega ofbeldinu og nokkrum sinnum því líkamlega og margir sáu ummerki eins og marbletti og aðra líkamlega áverka eftir barsmíðarnar. Af hverju var það fólk ekki kallað til?“

Þegar fimmtán ára dóttir Hildar bauðst af sjálfsdáðum til að vitna um hvernig ástandið hefði verið á heimilinu, var hún kölluð niður á lögreglustöð. Þar sagði stúlkan samviskusamlega frá öllu sem hún hefði orðið vitni að. Um svipað leyti fór Magnús til útlanda í meðferð og seinna á geðdeild hér heima. Þegar hann var kominn í þokkalegt stand skiptust þau á að hafa krakkana. En þegar loks átti að leggja fram kæru á hendur Magnúsi vegna heimilisofbeldis frétti Magnús af því.

„Þá tók hann stelpuna með sér niður á lögreglustöð og lét hana draga framburðinn til baka. Svo hringdi lögreglan í mig og sagði: „Já, við ætluðum að kæra hann fyrir heimilisbrot, en dóttir þín er búin að draga framburðinn til baka, hún er eina vitnið“,“ útskýrir Hildur og bætir við: „Ég spurði, hvaða vitleysa þetta væri, hún er barn sem kemur til ykkar í fylgd með brotamanninum til að draga kæruna til baka. Ég var svo reið að þetta væri mögulegt.“

Einkennilegar ákvarðanir

Nú þremur árum eftir að Hildur ákvað að slíta sambúðinni er ekki enn búið að skipta eignum þeirra. Hafa Hildur og Magnús staðið í málaferlum. Þrátt fyrir að dómstólar hafi dæmt henni í vil í tvígang hefur hún á fjórða ár ekki fengið það sem henni ber. Segja bæði Hildur og Þorsteinn að Magnús hafi ítrekað komið sér hjá því að mæta hjá sýslumanni. Lögmaður Magnúsar er Helga Melkorka Óttarsdóttir hjá Logos lögmönnum. „Sú kona er ekki vönd að virðingu sinni,“ segir Þorsteinn. Þann 18. mars 2015 var farið fram á opinber skipti. Þann 29. apríl sama ár úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness um opinber skipti og skipaði jafnframt skiptastjóra.

Þann 6. nóvember 2015 úthlutaði skiptastjóri svo Magnúsi yfirráðum yfir félögum þar sem miklir fjármunir voru geymdir sem voru í eigu Hildar og Magnúsar.

„Magnúsi, ásamt sínum lögfræðingi, hefur tekist að draga málið og nýta sér seinagang þess sér í hag,“ segir Þorsteinn.

Meðan á málaferlum stóð ákvað skiptastjórinn, Þyrí Steingrímsdóttir, að ekki væri ástæða til að frysta reikninga þar til niðurstaða fengist í málið. Að mati Þorsteins gerði Þyrí afdrifarík, óafturkræf mistök. Magnús hefur því getað nýtt þá fjármuni sem hann og Hildur höfðu aflað, eftir sínu höfði en hann hefur haft yfirráð yfir nokkrum fjölda félaga. Það má færa rök fyrir því að Magnús hafi fengið yfirráð og verið úthlutað eignum og fjármunum Hildar til eigin nota.

Héraðsdómur felldi úrskurð þann 29. júní 2016 og var niðurstaðan að eignum skildi skipt jafnt. Tekið var tillit til þess að Hildur hefði í upphafi sambandsins fengið fyrirframgreiddan arf frá foreldrum sínum og nýtt þá peninga til að kaupa íbúð þegar þau voru að byrja að búa. Einnig hafði Magnús verið í vinnu hjá Þorsteini. Um miðjan september 2016 staðfesti Hæstiréttur dóminn. Í október átti Magnús að láta Hildi fá helming eignanna en töluverður tími hefur farið í eignaleit. Um nokkurra mánaða skeið þokaðist málið ekkert áfram. Skiptastjóri treysti sér ekki til að sinna verkinu einn. Þá var skipaður matsmaður og skilaði hann loks niðurstöðu sinni nú í janúar. Hvenær matsmaður var skipaður liggur ekki fyrir en fyrsta boðun var undir lok apríl og matsmaður því líklega verið skipaður í þeim mánuði. Allt þetta hjálpaði til við að draga í um þrjú ár að Hildur fengi það sem hún átti rétt á. Varð hún því að treysta á fjölskyldu sína til að standa straum af lögfræðikostnaði og hafa í sig og á.

„Það er komið á fjórða ár síðan ég gekk út. En bíddu við, þá finnur lögfræðingurinn út úr því að samkvæmt einhverjum lögum sé hægt að biðja um yfirmatsmann,“ segir Hildur og bætir við að Magnús hafi dregið beiðni sína um yfirmatsmann til baka þegar hann áttaði sig á að hann þyrfti að bera kostnaðinn af því einn.

„Það hafa verið stunduð mannréttindabrot á Hildi,“ segir Þorsteinn. „Það er búið að þvæla þetta mál í þrjú ár og Magnús hefur nýtt sér svifaseint kerfi og lögfræðinga sem og fjármuni fyrrverandi konu sinnar til að brjóta á henni. Þetta er galið!“

Þorsteinn bendir á að þar sem ekki sé búið að klára þeirra mál fái Magnús helming af barnabótum og þá fær Hildur ekki meðlag á meðan þau eru skráð á sama stað. Þetta er mál sem dómsmálaráðherra og umboðsmaður Alþingis þurfa að taka til skoðunar. Ekki bara Hildar vegna, það eru fleiri konur þarna úti sem hafa án efa þurft að fara í gegnum sama ruglið.“

Þá gagnrýnir Hildur að eignir hafi ekki verið frystar á meðan væri verið að taka ákvörðun um hvernig eignum yrði skipt. „Sú ákvörðun að frysta ekki eignir okkar hefur valdið miklu tjóni. Í þrjú ár hefur Magnús getað farið með peningana okkar eins og hann vill.“

Þorsteinn bætir við: „Það á enginn skiptastjóri að afhenda eignir og halda að það verði dæmt á einhvern hátt.“

Meðan á málaferlum stóð átti Magnús í eldfimu sambandi við Hönnu Kristínu Skaptadóttur. Því sambandi lauk eftir að Magnús lagði á hana hendur en um það hefur ítrekað verið fjallað í öllum miðlum. Magnús dvaldi nýverið um skeið í Harrods-hverfinu í London, dýrasta hverfi borgarinnar. Magnús hefur nú tekið ákvörðun um að flytja til borgarinnar.

„Hann er enn skráður með lögheimili hjá mér. Ég spurði hann um daginn, úr því að hann væri að flytja, hvort hann myndi þá ekki færa lögheimili sitt. Hann sagðist þá ætla að ræða við lögmanninn sinn. Það er skelfilegt að hafa sama lögheimili og hann. Ég fæ síðan til mín allar stefnur sem berast á hendur honum og er stöðugt minnt á ofbeldismanninn. Það er búið að valda ómældu tjóni með röngum ákvörðunum.

Ég er uppgefin,“ segir Hildur. „Það var átak að fara. Þetta er eins og að koma út úr skápnum. Þú ert virkilega að átta þig og viðurkenna að þú hafir orðið fyrir þessu ofbeldi og öllu því sem gekk á. Þetta var ekkert líf og þegar þú heldur að þú sért hólpin tekur annars konar ofbeldi við sem íslenska ríkið tekur þátt í. Ég hef enga orku lengur. Það er búið að brjóta mig niður. Það versta er að hið opinbera hefur tekið þátt í því, íslenska ríkið. Þetta er lífsreynsla sem enginn á að upplifa. Þess vegna segi ég þessa sögu, fyrir mig. Fyrir aðrar konur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“