Ef vitsmunaverur utan jarðarinnar, ef þær eru á annað borð til, líkjast okkur mönnunum eitthvað þá kallar þróun samfélags þeirra á sífellt meiri orku. Af þeim sökum er talið að þær gætu byggt sólarorkuver á braut um stjörnur pláneta sinna til að anna orkuþörf sinni.
SETI (Search for Extraterrestrial Intelligence) hefur leitað að ummerkjum um líf utan jarðarinnar áratugum saman en aðeins smá hluti af þeirri leit hefur beinst að leit að byggingum. Aðaláherslan hefur verið á útvarpsmerki.
En stjörnufræðingar leita að slíkum ummerkjum og nú er unnið að nákvæmri kortlagningu til að reyna að finna stjörnur sem líklegt má teljast að búið sé að koma sólarorkuverum fyrir á braut um. Þessi vinna hefur nú þegar skilað því að nokkrar stjörnur eru taldar koma til greina og nú er verið að hugleiða af alvöru hvernig eigi að staðfesta að ef eitthvað risastórt er á braut um þær sé það gert af vitsmunaverum.