„Ég styð ekki þessi skilaboð. Ég þvertek fyrir að Reykjavíkurborg sé bendluð við svona áróður og lít það alvarlegum augum. Ekki bara vegna þess hvað ég stend fyrir pólitískt, heldur vegna þess sem Reykjavíkurborg stendur fyrir undir stjórn Pírata,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borginni, um umdeilda auglýsingu sem birtist á dögunum þar sem varað var við skaðsemi kannabisefna.
Íslenska lögregluforlagið og Félag íslenskra fíkniefnalögreglumanna bera ábyrgð á auglýsingunni, en mikill fjöldi fyrirtækja, embætta, stofnanna og sveitarfélaga leggja nafn sitt eða lógó við hana. Þar má nefna Vínbúðina, KFC, Melabúðina, Mjólkursamsöluna, Bakarameistarann, Happdrætti Háskóla Íslands, Mjölni, N1, Samherja, og fleiri.
Rauði krossinn gaf út í gær að nafn þeirra hafi verið birt í auglýsingunni án samþykkis og veltu því upp hvort slíkt ætti við um fleiri. Þá segir formaður Blaðamannafélags Íslands í samtali við Vísi í dag að félagið hafi verið blekkt til þátttöku í auglýsingunni.
Dóra Björt segir í nýrri Facebookfærslu það vekja athygli að Reykjavíkurborg, Hitt húsið og Bílastæðasjóður skrifi undir auglýsinguna en inntak hennar stangist á við stefnu Reykjavíkurborgar sem hefur skaðaminnkun að leiðarljósi.
„Ég hef beðið um svör við því hvernig það gat gerst að nafn borgarinnar og undirstofnana hafi verið bendluð við þessa auglýsingu. Ég er mjög ósátt við það og mun beita mér fyrir því að svona geti ekki aftur gerst, hafi einhver á vegum borgarinnar komið að þessu máli,“ segir hún.
Þá bendir hún á að inntak auglýsingarinnar gangi einnig í berhögg við þá pólitík sem hún og Píratar standa fyrir. „Gegn hugmyndafræði skaðaminnkunar, fræðslu frekar en hræðslu, auk þess sem hægt er að lesa skilaboðin sem sett fram til höfuðs þingmálum sem minn flokkur hefur staðið fyrir eða tekið þátt í að ýmist leggja grunn að eða hreinlega útbúa eins og frumvörp um afglæpavæðingu og neyslurými sem og þingsályktun um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímaefnaneyslu,“ segir hún.
„Ég hef ítrekað og ákaft beitt mér fyrir aukinni skaðaminnkun. Ég hef tryggt í meirihlutasáttmála að þjónusta skuli veitt á forsendum skaðaminnkunar. Ég hef tryggt í meirihlutasáttmála margföldun ,,Húsnæði fyrst“ heimila sem rísa nú um alla borg. Ég hef tryggt í meirihlutasáttmála heimili fyrir konur með geð- og vímuefnavanda sem er nú komið á laggirnar og er eitt flottasta úrræði borgarinnar innan málaflokksins. Ég hef látið afnema notkun blárra ljósa á salernum. Ég hef beitt mér fyrir því að skjól sé tryggt yfir heimilislausar konur í meira mæli og verið er að finna lausnir fyrir þær konur sem búa í bráðabirgðahúsnæði sem komið var upp vegna Covid. Ég hef beitt mér fyrir virku samráði við heimilislaust fólk og fólk með geð- og vímuefnavanda. Ég hef beitt mér fyrir breytingum sem grípa betur börn í vímuefnavanda. Ég hef beitt mér fyrir lagabreytingum svo viðurkenndur sé heilsufarsvandi fólks í langvarandi vímuefnaneyslu. Þetta eru nokkur dæmi,“ segir Dóra Björt.