fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Sálfræðiprófessor sem býður pólitískum rétttrúnaði byrginn

Gunnlaugur Jónsson náði að bóka Jordan Peterson til landsins örfáum vikum áður en hann sló algjörlega í gegn

Margrét Gústavsdóttir
Laugardaginn 10. mars 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir aðeins tveimur árum hafði varla nokkur maður heyrt minnst á kanadíska sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson. Nú hefur bók eftir hann skotist á topp listans yfir vinsælustu bækur Amazon, milljónir horfa á myndböndin hans á YouTube á hverjum degi og hann hefur skapað sér sess sem einn dáðasti, og um leið umdeildasti, fræðimaður heims.

Peterson er væntanlegur til landsins í sumar þar sem hann mun halda fyrirlestur í tengslum við bókina 12 rules for life – an antidote to chaos, en sú er einmitt á metsölulistanum um þessar mundir og væntanleg í íslenskri þýðingu innan skamms.

Í þessari óvanalegu og gríðarvinsælu sjálfshjálparbók fjallar Peterson meðal annars um hvað taugakerfi venjulegs humars getur sagt okkur um samhengi þess að rétta úr kútnum og ná árangri í lífinu. Hann útskýrir hvers vegna Egyptar til forna vegsömuðu hæfileika manneskjunnar til að veita athygli, hvernig fólk villist af leið þegar það fyllist biturð, hroka og hefndarþorsta og ástæðu þess að maður ætti alltaf að klappa ketti sem maður rekst á úti á götu.

Tengingar Jordans Peterson sameina á margan hátt forna visku goðsagna og ævintýra og nýjustu rannsóknir vísindanna en hann leitar meðal annars í kenningar Carls Jung og Josephs Campbell og er undir áhrifum frá hugsuðum og heimspekingum á borð við Friedrich Nietzsche, Aleksandr Solzhenitsyn og Fyodor Dostoyevsky.

Býður rétttrúnaðarfólkinu byrginn

Heillaðist af lífsspeki og kenningum Jordans Peterson og skipulagði komu hans til landsins. [mynd: Eva Björk fyrir VB]
Gunnlaugur Jónsson Heillaðist af lífsspeki og kenningum Jordans Peterson og skipulagði komu hans til landsins. [mynd: Eva Björk fyrir VB]
Heillaðist af lífsspeki og kenningum Jordans Peterson og skipulagði komu hans til landsins. [mynd: Eva Björk fyrir VB]
Gunnlaugur Jónsson Heillaðist af lífsspeki og kenningum Jordans Peterson og skipulagði komu hans til landsins. [mynd: Eva Björk fyrir VB]

Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri er meðal þeirra fjölmörgu sem hafa hrifist af lífsspeki og kenningum Peterson en hann skipulagði komu Peterson til landsins og stendur fyrir viðburðinum sem fer fram í Silfurbergi í Hörpu þann 4. júní. Gunnlaugur má teljast bæði spáskyggn og heppinn að hafa náð að bóka hann í tæka tíð enda hafa vinsældir hans aukist með ótrúlegum hraða. Peterson er bókaður marga mánuði fram í tímann og slegist er um viðtöl við hann.

Sjálfur segist Gunnlaugur hafa uppgötvað fræðimanninn á YouTube og segist hafa verið fljótur að átta sig á að þarna fór gegnheill og góður gáfumaður.

„Ég sá fljótt að hann er alveg gegnheill og ekta á margan hátt. Maður sér það á mörgu. Hann hefur til dæmis ekki kiknað undan álaginu sem hefur verið á honum að undanförnu, hann vandar sig alltaf í viðtölum, hlustar og ígrundar svörin sín vel og veit hvað hann er að tala um. Þekkir sitt svið. Hann talar af mikilli dýpt og sýnir gríðarlegt hugrekki og staðfestu í því hvernig hann stendur af sér ósanngjarnar árásir þeirra sem telja sig vera honum ósammála,“ útskýrir Gunnlaugur og bætir við að Jordan hafi einna helst verið umdeildur fyrir að bjóða pólitískum rétttrúnaði byrginn.

„Hann hefur verið sakaður um þröngsýni, karlrembu og kredduskap en ekkert af því stemmir við það sem hann hefur raunverulega fram að færa. Hins vegar hefur hann ögrað rétttrúnaðarstefnu í skoðunum mjög mikið enda segir hann fyrirbærið stórhættulegt og tengir meðal annars við alræðishyggju sem getur haft mjög alvarlegar neikvæðar afleiðingar í för með sér. Svo tel ég líka að hann sé umdeildur, einfaldlega af því hann er mjög áhrifaríkur. Fólk telur sig kannski vera honum mjög ósammála en um leið og það hlustar á hann sjálft, án milliliða, þá heyrir það strax að hann er alls ekki þröngsýnn kreddukarl heldur auðmjúkur og áhugasamur um að láta gott af sér leiða. Hann er jafnframt mjög athugull hlustandi og hikar ekki við að skipta um skoðun ef hann telur að fólk hafi einhvern sannleika fram að færa. Þegar fólk finnur að það hafi kannski haft alveg rangt fyrir sér með hann, þá verður það stundum reitt enda verður hver sannleikanum sárreiðastur.“

Með yfir eina milljón fylgjenda á YouTube

Eins og áður segir uppgötvaði Gunnlaugur Jordan Peterson á YouTube. Hann byrjaði á að horfa á eitt stutt myndband en síðan segist hann vera kominn upp í meira en hundrað klukkustundir af efni; fyrirlestra, viðtöl, samtöl, kúrsa og erindi.

„Maps of meaning eru til dæmis frábærar upptökur úr fyrirlestrum sem Peterson hélt við háskólann í Toronto og þær taka marga klukkutíma. Í þessum kúrsum fjallar hann meðal annars um erkitýpur Jungs og tengir þær við nýlegri rannsóknir um markmiðasetningar, persónuleikasálfræði og fleira. Hann kemur einnig inn á alræðishugsun af ýmsu tagi og tengir þar meðal annars við Disney-myndina um Gosa. Í raun er þetta svo umfangsmikið að það er ekki hægt að orða það í stuttu máli og því um að gera fyrir áhugasama að kíkja sjálfir á YouTube. Hópurinn sem fylgir honum þar hefur stækkað mjög hratt upp á síðkastið og nú er hann með um eina milljón áskrifendur sem er á við ríkissjónvarpsstöðvar í mörgum löndum,“ segir Gunnlaugur og bætir við að Peterson hafi afsannað allar kenningar um að myndbönd á YouTube þurfi nauðsynlega að vera stutt til að fólk haldi athyglinni.

„Hann er yfirleitt að tala í svona einn til tvo klukkutíma í þessum myndböndum og fólk virkilega hlustar enda höfðar efnið mjög sterkt til margra. Sjálfur segir hann að honum hafi komið skemmtilega á óvart hvað fólk leggur mikið við hlustir þegar hann fer að tala um persónulega ábyrgð, – en það fyrirbæri er í raun rauði þráðurinn í metsölubókinni um lífsreglurnar 12. Ein af hans allra frægustu setningum segir mönnum að taka til í herberginu sínu og eins og það hljómar nú hversdagslega og leiðinlega þá virðist sá boðskapur; að axla ábyrgð á lífi sínu og koma því í reglu, eiga mikið erindi við fólk í dag.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“