Stefnumótaöpp á borð við Tinder, Hinge og Bumble hafa hafið samstarf við bresk yfirvöld um að kynna bóluefni gegn kórónuveirunni. Nú verður hægt að sýna stuðning sinn við bólusetningar með því að velja sérstakt merki á prófílmyndirnar.
Einnig bjóða öppin upp á bónusa fyrir þá sem eru bólusettir. Meðal annars geta þeir fengið ókeypis „ofurlæk“.
Fólki er þó auðvitað í sjálfsvald sett hvort það skýri frá bólusetningastöðu sinni í öppunum en heilbrigðisyfirvöld fullyrða að það auki líkurnar á að komast á stefnumót ef fólk hefur látið bólusetja sig.
Nadhim Zahawi, ráðherra bólusetningamála, segir að þetta tiltæki sé enn ein snilldin í bólusetningaáætluninni sem sé sú umfangsmesta og árangursríkasta í sögu landsins.