fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Kolbrún vill að vinstri menn verði skemmtilegri – Vonar að Brynjar haldi áfram á þingi

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 10. júní 2021 10:30

Skjáskot/RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttablaðið birtir í dag pistil eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur þar sem hún fjallar um prófkjör Sjálfstæðismanna um síðustu helgi, ákveðna frambjóðendur og vinstri flokkana. Hún segir að prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafi fengið mikla athygli. „Áhuginn var svo brennandi að engu var líkara en það varðaði þjóðarhag hvort Guðlaugur Þór Þórðarson eða Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hreppti fyrsta sætið,“ segir hún og bætir við að flokknum hafi tekist að fá fjölda manns, sem aldrei hafa kosið flokkinn, til að lifa sig inn í prófkjörsslaginn.

Hún bendir á að Miðflokkurinn hafi haldið landsþing og Samfylkingin flokksstjórnarfund en nánast enginn hafi tekið eftir þessum fundum sem féllu í skugga prófkjörs Sjálfstæðisflokksins.

„Allnokkur endurnýjun varð í þessu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins enda mokuðu öflugir frambjóðendur stuðningsmönnum sínum inn í flokkinn. Ekki er hægt að finna að slíku. Keppnisskap er yfirleitt af hinu góða og flokksmenn eiga ekki að sjá ástæðu til að væla þótt fjölgi í flokknum þeirra,“ segir hún og víkur því næst að því hversu óútreiknanleg prófkjör eru.

Hún bendir á að Sigríður Á. Andersen, sem sé umdeild en kjörkuð, hafi beðið afhroð þar sem Landsdómsmálið hafi reynst henni dýrt, kjósendur hafi ekki viljað fyrirgefa henni ákvarðanir hennar í því. Hún segist vona að Brynjari Níelssyni snúist hugur varðandi stjórnmálaþátttöku. „Það þarf menn eins og hann á Alþingi Íslendinga til að ögra og hrista upp í þeirri forsjárhyggjuhugsun sem svo víða er ríkjandi. Stóri kosturinn við þessa tvo þingmenn, Sigríði Á. Andersen og Brynjar Níelsson, er að þeir eru algjörlega lausir við hjarðeðli. Hér höfum við einstaklinga sem eru óhræddir við að ganga gegn almenningsálitinu, jafn óþægilegt og það getur verið fyrir stjórnmálamenn, og segja skoðun sína hispurslaust. Þetta er afar hressandi í umhverfi þar sem stjórnmálamenn eru flestir á stöðugum atkvæða- og vinsældaveiðum. Afstaða þeirra til mála mótast því iðulega af því hvað þeim þykir henta þá stundina, fremur en að sannfæringin fái að ráða,“ segir Kolbrún og segir að hinn þrúgandi pólitíski rétttrúnaður samtímans hafi ekki náð tökum á þeim.

Því næst víkur hún að vinstri mönnum og gefur þeim ráð inn í framtíðina: „Í samfélagi okkar er brýn þörf fyrir stjórnmálamenn sem tala máli einstaklingsfrelsis. Fleiri þingmenn, en þeir tveir sem hér eru nefndir, hafa vissulega gerst málsvarar þess. Svo að segja allir eru þeir á hægri væng stjórnmála. Vinstri mönnum virðist einfaldlega hvorki þykja fínt né brýnt að tala fyrir auknu frelsi einstaklingsins í þjóðfélagi þar sem alls kyns bönn og takmarkanir færast stöðugt í aukana. Vinstri menn ættu að snúa af þessari vondu braut og temja sér meira frjálslyndi og víðsýni. Það myndi um leið gera þá að mun skemmtilegri og vænlegri kosti fyrir kjósendur en nú er.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt