Hrottalegt myndband gekk nýlega um netheima sem eldur í sinu en þar má sjá tvo unga menn slást af mikilli hörku. Myndbandið var tekið á Ingólfstorgi í lok maí og sýnir það mennina tvo veltast um á götuhorni Veltusunds og Hafnarstrætis. DV fjallaði um myndbandið þegar það var í hvað mestu dreifingu en samkvæmt heimildum DV eru mennirnir á myndbandinu annars vegar breskur ferðamaður og hins vegar Guðmundur Elís Sigurvinsson.
Guðmundur Elís var í fréttum í fyrra þegar fyrrverandi kærasta hans, Kamilla Ívarsdóttir, sagði frá hrottalegu ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir. Kamilla steig fram með eftirminnilegum hætti í Kastljósi þar sem hún greindi frá ofbeldinu og ofsóknum sem hún varð fyrir af hálfu Guðmundar. Kom þá á daginn að Guðmundur hafði ítrekað sett sig í samband við hana, þvert á nálgunarbann sem hann þá sætti, meðal annars með því að hringja í hana 122 sinnum úr síma fangelsisins á Hólmsheiði þar hann sætti gæsluvarðhaldi.
Guðmundur var í mars á síðasta ári dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir ofbeldisbrot sín. Þá var hann jafnframt sakfelldur fyrir að hafa hótað fyrrum kærustu sinni og barnsmóður ofbeldi. „Ég tek þig og kem […] þig í klessu og nauðga þér þegar ég kem,“ sendi Guðmundur barnsmóður sinni meðal annars. Árás Guðmundar á Kamillu var svo hrottaleg að hún var í upphafi rannsökuð af lögreglu sem tilraun til manndráps.
Fréttablaðið fjallaði um málið í dag en þar kemur fram að enginn hafi haft samband við lögregluna til að tilkynna um slagsmálin, þrátt fyrir að töluvert hafi verið um vitni að slagsmálunum. „Það er ekkert í LÖKE-kerfinu sem hægt er að tengja þetta við,“ sagði Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Fréttablaðið um málið.
„Viðkomandi sem verður fyrir þessum höggum á náttúrulega bara að kæra. Á meðan hann kærir ekki neyðum við hann ekki til þess,“ segir lögreglufulltrúinn en svo virðist vera sem enginn annar lögreglumaður kannist við málið. „Ég sendi líka tölvupóst á alla lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu og enginn kannast við neitt. Svo ég kíki ég líka í LÖKE-kerfið og það er ekkert sem tengir þetta saman.“