Hin látna fannst klukkan sjö í gærmorgun. Lögreglan bar kennsl á hana síðdegis í gær og tilkynnti ættingjum hennar um andlátið.
Lögreglunni var tilkynnt um umferðaróhapp á veginum á milli Morskogen og Espa um klukkan sex í gærmorgun. Þar var bíl ekið á röngum vegarhelmingi og framan á annan. Mikið eignatjón varð en meiðsli voru minniháttar. Talsmaður lögreglunnar segir að á slysstað hafi lögreglan fengið upplýsingar sem leiddu til þess að lík konunnar fannst í húsi í Hellerud. Hann vildi ekki skýra frá hvers eðlis þessar upplýsingar voru.
Lögreglan grunar manninn einnig um morðtilraun í tengslum við áreksturinn, það er að hann hafi vísvitandi ekið á hinn bílinn. Hann hefur aldrei áður komið við sögu lögreglunnar. Tengsl voru á milli hans og hinnar látnu en lögreglan vildi ekki skýra frá hver þau voru.