Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að í minnisblaðinu segi að atvinnurekendur hafi vakið athygli á að ráðningarferlið í átakinu sé seinvirkt. Fjölmörg fyrirtæki hafi boðið fólki í atvinnuviðtöl en það hafi reynst vera farið af atvinnuleysisskrá, meðal annars vegna þess að það hafi verið búið að ráða sig í vinnu annars staðar.
Markmiðið með átakinu er að skapa tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Meðal annars er boðið upp á ráðningarstyrki til atvinnurekenda sem ráða fólk til starfa í gegnum átakið. „Þá hafa einhver fyrirtæki ráðið inn starfsmenn í gegnum átakið en fengið synjun eftir á frá Vinnumálastofnun þar sem stofnunin hafði ekki tryggt frá upphafi að starfsmenn uppfylltu skilyrði ráðningarstyrks,“ segir í minnisblaðinu og er þetta sagt geta valdið fyrirtækjum og starfsfólki óþægindum og jafnvel uppsögn.
Eftirspurn eftir ráðningarstyrkjum er sögð hafa verið ansi mikil að undanförnu en þann 3. júní, daginn sem minnisblaðið er dagsett, var búið að skrá um 9.700 störf í átakið en aðeins hafði tekist að ráða í 2.700 störf.
Þegar Fréttablaðið leitaði viðbragða hjá Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, vildi hún ekki tjá sig um þessa gagnrýni en sagði að skoða þurfi ferla stofnunarinnar til að sjá hversu mörg mál er um að ræða og fleiri atriði.