Shekau er sagður hafa þótt of grimmur og mikill hrotti til að vera gjaldgengur í Íslamska ríkið sem kallar þó ekki allt ömmu sína þegar kemur að ofbeldi og manndrápum.
Nígerísk yfirvöld hafa ekki enn staðfest fréttir af láti hans en þær koma fram á hljóðupptöku sem var dreift um helgina.
Shekau hefur þó margoft áður verið lýstur látinn en birtist alltaf aftur svo það er rétt að hafa smá fyrirvara á andlátsfrétt hans að þessu sinni. Hann varð leiðtogi Boko Haram 2009 og breytti samtökunum úr lítilli neðanjarðarhreyfingu í hryllileg hryðjuverkasamtök sem hafa herjað á Nígeríu undanfarin ár. „Ég hef gaman af að drepa, eins og ég hef gaman af að slátra kjúklingum og sauðfé,“ sagði hann á myndbandsupptöku frá 2012.
Á valdatíð hans í Boko Haram hafa rúmlega 30.000 manns verið drepnir og rúmlega tvær milljónir hraktar frá heimilum sínum.