Gavin Newsom, ríkisstjóri í Kaliforníu, hefur lýst yfir neyðarástandi í 41 af 58 héruðum ríkisins. Samkvæmt opinberum tölum þá herja þurrkar á allt ríkið og tveir þriðju hlutar þess eru í tveimur efstu flokkum þurrkaskalans.
Mörg vatnsból hafa látið á sjá og vatnsbirgðir eru með minnsta móti. Lake Oroville, sem hefur farið einna verst út úr þurrkunum, sér milljónum íbúa í San Francisco og nágrenni fyrir vatni. Weather.com segir að vatnsmagnið í vatnsbólinu sé nú undir helmingi þess sem það er venjulega á þessum tíma.
Myndir af vatnsbólum víða á vesturströnd Bandaríkjanna sýna að í mörgum er ekkert annað eftir en smá pollar, jafnvel þar sem áður voru stöðuvötn.
Í grein í Science á síðasta ári kom fram að í vesturhluta Bandaríkjanna herji nú mestu þurrkar í 500 ár. Eru þurrkarnir sagði afleiðing loftslagsbreytinganna. Í San Francisco var síðasta skólaár það næstþurrasta síðan 1850.
Venjulega fyllast vatnsbólin þegar snjór bráðnar í Sierra Nevada en óvenjulega lítið snjóaði þar síðasta vetur og ekki bætti úr skák að sums staðar var jarðvegurinn svo þurr að hann drakk vatnið bara í sig og það rann því aldrei út í ár og stöðuvötn.
Vatnsskortur er farinn að gera bændum í Kaliforníu erfitt fyrir. Ríkið er stærsta landbúnaðarríki landsins og þar er mikið af búfénaði sem þarf vatn. Víða hafa bændur gefið ræktun upp á bátinn á þessu ári en vökva þarf um 40% akra í ríkinu en nú er einfaldlega ekki vatn til að hægt sé að vökva.
Á ríkjamörkum Kaliforníu og Oregon er staðan gríðarlega slæm. Þar byggðu alríkisyfirvöld stíflur og áveitur fyrir 100 árum sem gjörbreyttu landslaginu að sögn New York Times. Þetta hafði þær afleiðingar að mýrlendi var gert að ökrum. Þurrkarnir hafa drepið lax í ám og svo lítið vatn er í stærsta stöðuvatni Oregon að ekki er öruggt að fiskar lifi af.
Bændur hafa fengið þau skilaboð að þeir fái ekkert vatn á þessu ári en þeir hafa fengið vatn árlega síðan 1907 frá stíflukerfinu og úr stöðuvatninu. Þeir eru ævareiðir og segjast eiga rétt á að fá vatn og óttast að verða gjaldþrota. Sumir þeirra hafa viðrað þá skoðun að þeir eigi að grípa til aðgerða og opna fyrir áveiturnar sjálfir.
Ammon Bundy, þekktur öfgahægrimaður, hefur blandað sér í málin og sagt að fólk verði að vera reiðubúið til að beita valdi, jafnvel þótt lögreglan reyni að stöðva það. Bundy er meðal annars þekktur fyrir að hafa verið forsprakki ólöglegrar landtöku þjóðgarðs 2016 en þá tóku hann og fleiri vopnaðir menn garðinn yfir.