fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
FókusKynning

Borðaðu þetta á nýju ári

Hugmyndir að hollum mat sem bætir heilsuna – Best er að borða grænmeti hrátt

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 7. janúar 2016 11:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru fastir liðir eins og venjulega að fólk setji sér markmið á nýju ári, og þá gjarnan hvað mataræðið varðar. Að snúa til betri vegar, viðhafa heilbrigðari lífsstíl og borða hollari mat getur bara verið af hinu góða. En gott er að hafa í huga að fara ekki of geyst af stað í breytingarnar, því það er alltaf hætta á því að slíkt flas verði fólki að falli.
Það er um að gera að byrja á því að skipta óhollari fæðu út fyrir hollari hægt og rólega og gera þannig nýja fæðu að fastri breytu í mataræðinu á sem eðlilegast hátt. Hér eru nokkur dæmi um einstaklega holla fæðu sem ætti að vera hluti af mataræði þínu á nýju ári.

Spínat

Spínat ætti að vera sem oftast á borðum, en rannsóknir hafa meðal annars sýnt að það geti spornað við sykursýki 2. Þá er spínat uppfullt af vítamínum sem eru líkamanum nauðsynleg. Best er að borða spínatið hrátt eða létt gufusoðið til að vítamínin fari ekki til spillist. En svo eru að sjálfsögðu til margir góðir réttir sem þarf að fullelda, en innihalda spínat. Það er þó alltaf betra en ekkert spínat.

Möndlur

Möndlur eru klárlega hollasta snakkið, en þó ber að varast að borða of mikið af þeim. Þær eru ríkar af hollri fitu sem draga úr og viðhalda eðlilegu magni kólesteróls í blóð. Þar fyrir utan eru þær uppfullar af vítamínum, steinefnum og trefjum

Mynd: © 2007 Oliver Hoffmann

Avókadó

Avókadó eða lárpera er með því hollara sem þú getur borðað. Að borða eitt avókadó á dag kemur heilsunni í lag – eða allt að því. Það getur allavega bætt hana verulega. Ávöxturinn er mjög fituríkur og um 75 prósent af kalóríunum sem þú færð úr avókadó koma úr fitu. Þar er hins vegar um holla fitu að ræða sem gerir líkamanum gott. Þá er avókadó ein trefjaríkasta fæða sem þú getur innbyrt og því sérlega gott fyrir meltinguna.

Hafragrautur

Að borða hafragraut á hverjum morgni er allra meina bót. Það er sérstaklega gott fyrir þá sem eru með of hátt kólesteról í blóðinu því rannsóknir hafa sýnt fram á að með neyslu á haframjöli sé hægt að lækka það. Haframjölið er líka ríkt meðal annars af B-vítamíni og Omega-3 fitusýrum

Brokkolí

Brokkolí eða spergilkál er sérstaklega ríkt af trefjum, kalsíum og ýmsum öðrum vítamínum, eins og C-vítamíni. 100 grömm af spergilkáli gefa af sér um 150 prósent af daglegri C-vítamín þörf einstaklings. Rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla á spergilkáli geti dregið úr líkum á hjartasjúkdómum, sykursýki 2 og ákveðnum tegundum af krabbameini. Það ber hins vegar að varast að elda spergilkálið of mikið því þá tapast flestöll næringarefnin.

Mynd: Shutterstock

Bláber

Það er mjög gott að neyta ýmiss konar berja mjög reglulega. Til dæmis bláberja. Þau eru rík af trefjum og andoxunarefnum og talið er að neysla á bláberjum hafi jákvæð áhrif á of háan blóðþrýsting – geti lækkað hann um allt að 10 prósent. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að eldra fólk sem neytir reglulega bláberja er ólíklegra til að þróa með sér elliglöp en jafnaldrar þess sem gera það ekki. Það virðist að minnsta kosti ekki gerast jafn hratt.

Mynd: Shutterstock

Lax

Lax og annar feitur fiskur ætti að vera á borðum einu sinni eða tvisvar í viku. Jafnvel oftar. Hann er fullur af Omega-3 fitusýrum sem hafa jákvæð áhrif á hjarta- og taugakerfið. Neysla á feitum fiski er líka talin sporna gegn liðagigt.

Sætar kartöflur

Sætar kartöflur eru ríkar af trefjum, karótíni, flóknum kolvetnum og fjölda vítamína. Fyrir vikið eru þær frábær orkugjafi og ekki skemmir fyrir hvað þær eru einstaklega góðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni