Kínversk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu þetta í gær. Maðurinn, sem býr í Zhenjiang í austurhluta Jiangsu, var lagður inn á sjúkrahús með hita og fleiri sjúkdómseinkenni. Hann greindist með H10N3 þann 28. maí. Ekkert kom fram um hvernig hann smitaðist.
H10N3 veldur ekki neinum sérstökum veikindum og er því í flokki minna alvarlegra fuglaflensuafbrigða.
Líðan mannsins er ágæt og hann verður væntanlega útskrifaður af sjúkrahúsi fljótlega. Ekki fundust nein smit hjá þeim sem hann hafði umgengist.
Mörg afbrigði fuglaflensu grassera í Kína en mjög sjaldgæft er að fólk smitist, helst er það fólk sem vinnur með fiðurfénað sem smitast.
Ekki hefur þó verið um nein stór hópsmit að ræða síðan H7N9 varð um 300 manns að bana 2016 og 2017.