Arsenal er í leit að varamarkverði til þess að veita Bernd Leno samkeppni á næstu leiktíð. Rúnar Alex Rúnarsson er á mála hjá félaginu en verður líklega ekki treyst til þess að vera markvörður númer tvö á Emirates-vellinum. Líklegasta niðurstaðan er sú að Mat Ryan komi aftur til félagsins. Football.London greinir frá.
Rúnar Alex kom til Arsenal fyrir síðasta tímabil og lék alls sex leiki í öllum keppnum fyrir félagið. Hann sýndi ágætis takta inn á milli en virkaði þó oft ótraustur. Þá gerði hann tvö slæm mistök í leik gegn Manchester City í deildabikarnum.
Ryan var fenginn til Arsenal á láni í janúar til þess að veita Leno samkeppni. Hann lék þrjá leiki og stóð sig nokkuð vel. Það er líklegt að hann komi frítt til félagsins í sumar og verði áfram markvörður númer tvö.
David Raya, markvörður Brentford, hefur einnig verið á blaði hjá Arsenal. Hann var með klásúlu í samningi sínum um það að hann mætti fara fyrir 10 milljónir punda ef Brentford hefði mistekist að komast upp í ensku úrvalsdeildina. Hún féll þó úr gildi þegar liðinu tókst það á dögunum. Það er því ólíklegt að Arsenal reyni við hann áfram.