Simon Jordan, þáttastjórnandi á talkSPORT segir að næsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni verði erfiðara fyrir Ole Gunnar Solskjær, stjóra Manchester United, heldur en það síðasta. Jordan segir ástæðuna fyrir því vera að stjórar annara liða séu betri.
,,Ég held að koma (Thomas) Tuchel geri Ole Gunnar Solskjær enn erfiðara fyrir hvað varðar að komast lengra en þar sem hann er núna, sem er að vinna ágætis vinnu en ekki að fara að vinna neitt. Nú er annar þjálfari sem hann þarf að yfirstíga,“ sagði Jordan í þættinum. Tuchel tók við Chelsea í janúar og tók liðið miklum framförum undir hans stjórn. Leiktíð þeirra var svo fullkomnuð þegar félagið varð Evrópumeistari um síðustu helgi eftir 1-0 sigur á Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Manchester United átti ágætis tímabil heilt yfir. Liðið hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar og fór í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Þar tapaði liðið fyrir Villarreal eftir vítaspyrnukeppni. Jordan virðist þó ekki sérstaklega hrifinn af Solskjær.
,,Þetta snýst ekki bara um leikmenn heldur einnig um stjórnun. Guardiola og Klopp hafa verið elítu-þjálfarar og nú erum við með annan alvöru stjóra. Svo er Brendan Rodgers líka þarna. Ég held að vandræði Manchester United verði stærri á næsta ári því þeir eru ekki með nógu góðan stjóra til að keppa við þá bestu.“