Kristján Óli Sigurðsson sérfræðingur í hlaðvarpsþættinum Dr. Football skellti fram skýrslu í þættinum sem kom út í dag. Um var að skýrslu er varðar mál Þorvalds Örlygssonar og Arnars Þórs Viðarssonar landsliðsþjálfara.
Um er að ræða atvik sem kom upp í október á síðasta ári þegar þá landsliðsþjálfarar Íslands, Erik Hamren og Freyr Alexandersson lentu í sóttkví. Smit kom upp í herbúðum landsliðsins fyrir leik gegn Belgíu og var allt þjálfarateymið sett í sóttkví.
Arnar Þór var þá þjálfari U21 árs landsliðsins sem og yfirmaður knattspyrnumála, hann var staddur erlendis þegar smitið kom upp.
„Það heldur betur sauð upp úr í haust, þegar Ísland mætti Belgíu í Þjóðadeildinni. Erik Hamren og Freyr voru í sóttkví og máttu ekki stýra liðinu, Þorvaldur Örlygsson var fenginn til þess að stýra liðinu,“ sagði Kristján Óli í skýrslu sinni í hlaðvarpsþættinum Dr. Football en Þorvaldur var þjálfari U19 ára liðsins.
Kristján segir að búið hafi verið að setja Þorvald inn í öll mál. „Það var búið að setja hann inn í öll mál, þar til að yfirmaður knattspyrnumála fréttir af þessu. Arnar Þór Viðarsson var þá staddur í Lúxemborg, hann tók það ekki í mál að Þorvaldur myndi stýrði liðinu,“ sagði Kristján. Skömmu síðar hætti Þorvaldur störfum í Laugardalnum og réð sig til starfa hjá Stjörnunni.
„Arnar tók þetta ekki í mál og sagðist taka þetta, á endanum var það þannig. Ég skil ekki hvernig Hamren og Freyr tóku það í mál, hann var ekki á landinu og kom rétt fyrir leik.“
„Þetta var upphafið að endalokum Þorvaldar í Laugardalnum, þarna kastaðist í kekki og þau sár eru ekki ennþá gróin.“
Arnar Þór tryggði sér starfið sem A-landsliðsþjálfari skömmu síðar en hann er nú staddur í sínu öðru verkefni sem þjálfari liðsins.