Tom Heaton, markvörður Aston Villa, er á leið aftur til Manchester United. Nokkrir breskir miðlar hafa greint frá þessu síðustu daga.
Samningur leikmannsins við Villa rennur út í næsta mánuði. Hann mun þá ganga til liðs við Man Utd á frjálsri sölu og skrifa undir tveggja ára samning. Þessa stundina er Heaton í fjölskyldufríi erlendis. Hann mun ganga frá smáatriðum þegar hann snýr aftur til Englands.
Heaton var á mála hjá Man Utd til ársins 2010. Hann lék þó aldrei leik fyrir aðallið félagsins.
Markvörðurinn hefur leikið fyrir Burnley, sem og auðvitað Aston Villa, í ensku úrvalsdeildinni. Hann lék þó ekkert á nýafstaðinni leiktíð með Villa.
Lee Grant og Sergio Romero gætu verið á förum frá Man Utd og leitar félagið því til Heaton. Fyrir eru svo þeir David De Gea og Dean Henderson í baráttu um markvarðastöðuna.