Brentford fær ansi væna summu fyrir það að komast upp í ensku úrvalsdeildina. Þeir unnu Swansea í dag í úrslitaleik umspilsins.
Ivan Toney kom Brentford yfir á 10. mínútu leiksins í dag með marki úr vítaspyrnu. Emiliano Marcondes tvöfaldaði forystu þeirra tíu mínútum síðar eftir glæsilegan undirbúnin Mads Roerslev. Lokatölur urðu 2-0.
Úrslitaleikur umspilsins í Championship-deildinni er sá verðmætasti í heimsfótboltanum. Brentford mun fá um 178 milljónir punda fyrir sigurinn í dag. Ansi fín summa til að fá inn á reikninginn fyrir átökin í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Upphæðin jafngildir meira en 30 milljörum íslenskra króna.
Brentford hefur verið ansi vel rekið félag síðustu fimm ár. Eins og fram kom fyrr í dag hafa þeir eytt minnst allra liða í Championship-deildinni yfir síðustu fimm tímabil.