Harry Kane, framherji Tottenham, Eric Dier, liðsfélagi hans og Ryan Mason, bráðabirgðastjóri liðsins skelltu sér ásamt eiginkonum beint í utanlandsferð í sólina á einkaþotu eftir að tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni lauk um síðustu helgi. Kane mætti aftur til Englands í dag til þess að hitta enska landsliðið.
Tímabilið á Englandi kláraðist síðasta sunnudag og lauk Kane því sem markakóngur sem og stoðsendingahæsti leikmaðurinn. Hann skoraði 23 mörk í ensku úrvalsdeildinni og lagði upp 14.
Tottenham gekk hins vegar ekki eins vel á leiktíðinni og endaði í sjöunda sæti. Kane hefur verið sterklega orðaður frá félaginu. Manchester-liðin, City og United hafa verið nefnd sem hugsanlegir áfangastaðir fyrir leikmanninn, sem og Chelsea.
Kane hafði ekki marga daga í sólinni því hann þurfti að koma til móts við enska landsliðið í dag. Liðið mun leika á Evrópumótinu í næsta mánuði.
Einkaþotan sem Kane og vinir hans ferðuðust með var mjög glæsileg. Útlit hennar utan frá má sjá efst í fréttinni og svo er einnig mynd innan úr vélinni sem sjá má hér fyrir neðan.