Hollenski varnarmaðurinn Matthijs de Ligt, hjá Juventus, hefur ekki farið í bólusetningu við COVID-19 og miðað við orð hans mun hann ekki þiggja eina slíka.
Sjálfur fékk De Ligt kórónuveiruna í janúar. ,,Ég var meiddur í þrjá mánuði, kom til baka og greindist með veiruna,“ sagði Hollendingurinn í viðtali þar sem hann ræddi krefjandi tímabil.
,,Ég hef ekki þegið bólusetningu, það er ekki skylda. Mér finnst að maður eigi að ráða líkama sínum sjálfur. Það er alltaf hætta á að smitast. Ég reyni að hitta eins fáa og ég get fyrir utan hollenska landsliðið.“
De Ligt, sem er 21 árs gamall, hefur leikið 36 leiki í öllum keppnum á tímabilinu. Talið er að Barcelona hafi áhuga á því að krækja í hann.
,,Ég er ánægður hjá Juve, mér líður eins og fiski í vatni. Orðrómarnir standast ekki eins og er. Þetta skiptir mig engu máli og enginn hefur sagt mér frá þessu,“ sagði varnarmaðurinn.