Sjómaður sem slasaðist við störf um borð í ísfisktogara árið 2016 tapaði á fimmtudag fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur skaðabótamáli sem hann höfðaði gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Slysinu er lýst svo í texta dómsins:
„Stefnandi slasaðist við vinnu sína sem netamaður um borð í ísfiskstogaranum Ö 22. september 2016. Tildrög þess munu hafa verið þau að stefnandi var við vinnu í lest
skipsins og var að koma 50 kg þungu fiskikari fyrir í þriðju röð kara, ofan á tvö kör sem þegar hafði verið komið fyrir fullum af ísuðum fiski, er hann fékk slink á olnboga á vinstri handlegg og verk í olnbogabótina eftir því sem bókað var í skipsdagbók. Stefnandi hefur lýst málsatvikum nánar þannig að hann hafi verið að vinna við frágang á fiski í fiskikör laust eftir hádegi þennan dag. Bræla hefði verið um nóttina, lægt með deginum en enn umtalsverður vindur, 10 til 23 metrar á sekúndu, er slysið hefði átt sér stað. Báðum megin við það fiskikar þar sem stefnandi hugðist setja tóma karið hefði verið búið að stafla körum hærra. Sökum veltings skipsins hefðu þær karastæður gengið til og bilið á milli þeirra þrengst þar sem stefnandi hugðist koma tóma karinu fyrir. Hefði hann því þurft að þrýsta karinu á milli hinna tveggja. Hann hafi lyft karinu upp á rönd og ýtt með hné sínu undir karið en þurft að lyfta karinu í andlitshæð, standandi gleiður á hálu lestargólfinu vegna sjógangsins. Þannig hafi hann komið brún karsins ofan á karið sem neðar var í stæðunni, og verið að þrýsta karinu inn á milli karanna sem fyrir voru er skipið hafi oltið til vegna sjólags. Stefnandi hefði þá fengið skyndilegan hnykk á olnbogann. Þrátt fyrir sársauka sem af því hlaust hefði hann náð að koma karinu fyrir en síðan hefði hann vart ráðið við að moka ís með skóflu í annað kar sem búið var að fylla af fiski.“
Nokkru eftir slysið var maðurinn metinn með 75% örorku. Tilraunir hans til að stunda sjómennsku aftur enduðu í verkjaköstum.
Maðurinn fór fram á slysabætur úr slysatryggingu sjómanna en Sjóvá-Almennar neitaði bótaskyldu. Ekki væri sannað að atvikið félli undir gildissvið slysastryggingar þar sem hugtakið slys sé skilgreint sem skyndilegur utanaðkomandi atburður sem valdi meiðslum á líkama þess sem er tryggður og gerðist sannarlega án vilja hans.
Vísaði tryggingafélagið bæði til þess að ekki hefðu verið nein vitni að atburðinum og ekki væri fullsannað að örorka mannsins ætti sér ekki að hluta orsök í undirliggjandi heilsufarsvanda.
Héraðsdómur féllst á röksemdir tryggingafélagsins og sýknaði Sjóvá-almennar af bótakröfum sjómannsins sem situr tómhentur eftir, tæpum fimm árum eftir slysið.