Pep Guardiola, stjóri Manchester City, sparar ekki stóru orðin þegar kemur að Phil Foden, leikmanni liðsins. Hann hefur nú borið hann saman við einn besta leikmann sögunnar, Lionel Messi.
,,Hann er hæfileikaríkasti leikmaður sem ég hef séð,“ sagði Guardiola um Foden í viðtali í aðdraganda úrslitaleiks Meistaradeildarinnar á milli Man City og Chelsea.
Hinn 21 árs gamli Foden hefur hægt og bítandi gert sig gildandi í liði City undanfarin fjögur ár eða svo. Fólk undraði sig oft á því af hverju City lánaði ekki leikmanninn til þess að hann gæti fengið meiri spiltíma en Guardiola hélt honum alltaf hjá sér. Það virðist hafa borgað sig því leikmaðurinn hefur gjörsamlega sprungið út á þessari leiktíð.
,,Sá besti er Messi. Ég hitti hann hins vegar ekki þegar hann var 17 ára eins og Phil. Á þessum aldri hef ég aldrei séð leikmann lofa jafn góðu,“ sagði Guardiola einnig í viðtalinu.
Úrslitaleikur Man City og Chelsea fer fram í kvöld klukkan 19 að íslenskum tíma.