Guðlaugur Victor Pálsson landsliðsmaður í knattspyrnu samdi við þýska félagið Schalke á dögunum, eitt af stæri félögum Þýskalands sem var að falla niður í næst efstu deild. Síðasta ár var erfitt fyrir Guðlaug þar sem hann missti meðal annars móður sína. Hann ræðir málið ítarlega við Bjarna Helgason á Morgunblaðinu.
Guðlaugur ræðir síðasta ár í lífi sínu í viðtalinu en þar kemur fram að sonur hans hafi flutt frá honum á síðasta ári, þá skildu leiðir hjá Guðlaugur og barnsmóður hans sem flutti til Kanada. Nokkrum vikum síðar lést svo móðir hans.
„Þetta var alveg steiktur tími því ég kveið því að sjá á eftir stráknum til Kanada, meiðist, við komumst ekki á EM, ég fer í tvær aðgerðir og missi svo móður mína. Þetta gerist allt á einhverjum þriggja vikna kafla og ég get alveg viðurkennt það að tilveran hjá mér hrundi þarna á ákveðnum tímapunkti,“ sagði Guðlaugur í viðtali við Morgunblaðið.
Guðlaugur kom til Íslands til að fylgja móður sinni til grafar en var svo staddur í Þýskalandi þar sem hann fékk góða hjálp „Ég var með sálfræðinginn minn á sjálfvali í símanum hjá mér og ég talaði við hann á hverjum einasta degi í einhverja þrjá mánuði.“
Á þessum tíma voru kjaftasögur um að Guðlaugur ætlaði að halda heim til Íslands, þæru voru réttar en fóru í taugarnar á honum.
„Ég bað umboðsmanninn minn um að taka stöðuna á klúbbunum heima og þessi fréttaflutningar á Íslandi, um að ég væri á heimleið, átti alveg rétt á sér. Á sama tíma fór það mikið í taugarnar á mér að þetta skildi enda í fjölmiðlum en Ísland er lítið samfélag og ef eitthvað svona spyrst út er það fljótt að fara út um allt,“ sagði Guðlaugur en ástæða þess að hann vildi koma heim voru þær að vera nær fjölskyldu sinni eftir röð áfall.
Móðir Guðlaugs, Ásta Marta Róbertsdóttir lést 27 nóvember en hún hafði glím við fíknisjúkdóma um langt skeið.
„Við mamma vorum í ágætis sambandi á síðasta ári. Hún var mest megnis edrú og á fínum stað þannig séð. Samskiptin voru þess vegna nokkuð góð en ég heyrði ekkert í henni þremur vikum áður en hún lést því hún hafði fallið um það leyti,“ sagði Guðlaugur við Morgunblaðið.
„Samband okkar síðustu ár var kannski ekki eins og maður vildi hafa það en ég hélt alltaf í vonina um að hún myndi koma til baka og yrði til staðar sem bæði móðir og amma. Hún elskaði strákinn minn mikið og hennar heitasta ósk var að sigrast á sinni fíkn og vera til staðar fyrir börnin sín. Því miður þá er sjúkdómurinn eins og hann er og þetta er ekkert grín að eiga við.“
Guðlaugur hefur sjálfur lagt flöskuna á hilluna. „Þessi sjúkdómur er algjört helvíti fyrir fólk og ég hef meiri skilning á honum í dag. Hún var ekki hún sjálf þegar fíkillinn tók völdin. Ég fyrirgef henni og á sama tíma get ég tekið á móti hennar afsökunarbeiðnum í dag.“
„Ég veit að hún var og verður alltaf stolt af mér og fylgist með mér að ofan,“ sagði Guðlaugur í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið.