Samkvæmt ítalska fjölmiðlinum La Stampa hefur Jose Mourinho, nýr stjóri AS Roma, hringt í Cristiano Ronaldo til þess að taka á honum stöðuna og ræða hugsanleg skipti leikmannsins frá Juventus í sumar.
Samningur Ronaldo við Juve rennur út eftir næstu leiktíð og hefur framtíð hans mikið verið í umræðunni. Hann var bekkjaður í lokaleik Serie A á dögunum er lið hans tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð. Því hefur verið velt upp hvort að það gefi einhver fyrirheit um hugsanlega brottför leikmannsins.
Ronaldo hefur verið orðaður við sín fyrrum félög, Manchester United og Real Madrid, ásamt Paris Saint-Germain.
Roma gæti hins vegar gert honum kleyft að halda þeim skattafríðindum sem leikmaðurinn hefur nú þegar sem erlendur leikmaður á Ítalíu. Aftur á móti er leikmaðurinn með 27 milljónir punda í árslaun og gæti það sett stórt strik í reikninginn fyrir Roma.
Það er erfitt að ímynda sér að Ronaldo taki slaginn með Roma, sem mun leika í Sambandsdeild UEFA á næstu leiktíð. Hann vann þó með Mourinho hjá Real Madrid á árunum 2010 til 2013. Það er spurning hvort að það hafi haft einhver áhrif að stjórinn hafi tekið upp tólið.