Frétt með myndbandi sem sýnir slagsmál tveggja manna í miðbænum fyrir skömmu hefur vakið gífurlega athygli, en annar mannanna, sá sem fór halloka í átökunum, er dæmdur ofbeldismaður að nafni Guðmundur Elís Sigurvinsson.
Guðmundur Elís var í fréttum í fyrra þegar fyrrverandi kærasta hans, Kamilla Ívarsdóttir, sagði frá hrottalegu ofbeldi sem hún hafði orðið fyrir af hendi hans. Kamilla steig fram með eftirminnilegum hætti í Kastljósi þar sem hún greindi frá ofbeldinu og ofsóknum sem hún varð fyrir af hálfu Guðmundar. Kom þá á daginn að Guðmundur hafði ítrekað sett sig í samband við hana, þvert á nálgunarbann sem hann þá sætti, meðal annars með því að hringja í hana 122 sinnum úr síma fangelsisins á Hólmsheiði þar sem hann sætti gæsluvarðhaldi.
Guðmundur var í mars á síðasta ári dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir ofbeldisbrot sín. Þá var hann jafnframt sakfelldur fyrir að hafa hótað fyrrverandi kærustu sinni og barnsmóður ofbeldi.
Árás Guðmundar á Kamillu var svo hrottaleg að hún var í upphafi rannsökuð af lögreglu sem tilraun til manndráps.
Ung kona, Eva Rut Lund, var á vettvangi átakanna í miðbænum á dögunum og tengist aðdragandanum að þeim. Hún staðfestir þetta í viðtali við DV. Segir hún að áður en í brýnu sló með Guðmundi og breska ferðamanninum hafi Guðmundur verið með ógnandi tilburði við hana:
„Ég var með vinkonum mínum niðri í bæ, þær þekkja hann og urðu hræddar, það fór í taugarnar á mér. Hann var einhvern veginn búinn að vera rétt hjá okkur allt kvöldið og stelpurnar alltaf með varnirnar uppi,“ segir Eva en vinkonurnar fóru á karaoki-kvöld á skemmtistaðnum Gaukur Stöng og þar var Guðmundur. Þar var einnig breskur vinahópur, þar með talinn sá maður sem slóst við Guðmund stuttu síðar.
„Eftir lokun þá löbbuðum við í átt að Ingólfstorgi. Allt í einu sjá stelpurnar Guðmund og vilja þá ganga í aðra átt.“ Eva var hins vegar ekki í skapi til að forðast Guðmund og ögraði honum þess í stað með því að segja mjög hátt: „Greyið Kamilla, maður. Algjörlega ömurlegt að lenda í svona manni. Hvernig hefur Kamilla það í dag?”
Guðmundur brást við þessari ögrun með ógnandi tilburðum: „Hann snýr sér við, rífur af sér jakkann, pumpar brjóstkassann fram og gengur að mér.“
Bretarnir sem höfðu setið á næsta borði við stúlkurnar á Gauki á Stöng komu þarna að. Voru þeir um fimm talsins. Þeir sáu að Guðmundur stóð alveg upp við Evu og hafði í frammi ógnandi tilburði. Einn þeirra ákvað að skerast í leikinn.
Bretinn bað Guðmund um að fara og láta Evu í friði. Hann gerði Guðmundi ljóst að hann hefði að baki herþjálfun og væri því ekki fýsilegur kostur fyrir hann til átaka. Bretinn, sem að sögn Evu heitir Tom, sagði að hann vildi ekki taka þátt í þessu en ætlaði ekki að horfa upp á það að hann ógnaði konu.
„Vinkona mín dró upp símann sinn og sýnir fyrst félaga Tom myndirnar af Kamillu,“ segir Eva, en um er að ræða myndir sem hafa birst í fjölmiðlum og sýna andlit Kamillu eftir að Guðmundur hafði misþyrmt henni. Tom voru þá sýndar myndirnar og vinkona Evu sagði: „This is what he did to a child.“
Á næsta augnabliki ýtti Guðmundur við Tom, að sögn Evu, og þeir ruku saman. Var það ójafn leikur eins og myndbandið sýnir en sem fyrr vörum við viðkvæma við því.
Eva segir að Guðmundur hafi virst undir sterkum áhrifum vímuefna þetta kvöld. Fjölmargar ungar stúlkur í miðbænum báru kennsl á hann og þeim stóð ógn af nærveru hans.