Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF í kvöld og skoraði er liðið sigraði Aalborg í úrslitaleik um sæti í Sambandsdeild Evrópu (e. Europa Conference League). Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni.
Bror Blume kom AGF yfir á 20. mínútu leiksins. Tom van Weert jafnaði fyrir Aalborg þegar 20 mínútur lifðu leiks. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að fara í framlengingu.
Kasper Kusk kom Aalborg yfir á 19. mínútu framlenginarinnar. Það stefndi í að þeir væru á leið í Evrópu þegar AGF fékk víti í blálokin. Á punktinn fór Jón Dagur og skoraði. Staðan 2-2 eftir framlengingu og því var gripið til vítaspyrnukeppni.
Þar skoraði AGF úr þremur spyrnum en Aalborg aðeins einni. Jón Dagur skoraði úr sinni spyrnu. AGF fer því í Sambandsdeildina á næstu leiktíð.
Andrea Mist lék í jafntefli
Andrea Mist Pálsdóttir var í byrjunarliði Vaxjö í sænsku úrvalsdeildinni er liðið gerði markalaust jafntefli við Linköpings. Hún spilaði tæpar 80 mínútur. Vaxjö er í neðsta sæti deildarinnar með 2 stig eftir sjö leiki.