UEFA stefnir á að breyta Meistaradeildinni, ásamt öðrum Evrópukeppnum félagsliða á þeirra vegum, með því að taka útimarkaregluna úr gildi.
Reglan hefur verið í gildi frá því árið 1965, fyrst í Evrópukeppni bikarhafa. Hún hefur verið notuð til þess að útkljá sigurvegara þegar lið gera jafntefli í tveggja leikja einvígi. Þá vinnur það lið sem skoraði fleiri mörk á útivelli.
Tillagan að því að taka regluna úr gildi verður nú færð til framkvæmdanefndar. Ef hún er samþykkt þar mun reglan heyra sögunni til.
Ef það kemur til þess munu tveggja leikja einvígi í Meistaradeildinni, Evrópudeildinni og hinni nýju Sambandsdeild sem standa jöfn eftir tvo 90 mínútna leiki einfaldlega fara í framlengingu, óháð því hvort að annað liðið hafi skorað fleiri útivallarmörk.
Útimarkareglan hefur verið gagnrýnd af mörgum fyrir ýmsar sakir. Þar á meðal vegna þess að þegar einvígi hafa farið í framlengingu hefur annað liðið 30 mínútur til viðbótar til þess að skora hið mikilvæga útivallarmark. Það munu því einhverjir fagna ef til þess kemur að reglan verði felld úr gildi.