Karlmaður var í vikunni dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa hrækt á lögregluþjón á meðan á handtöku mannsins stóð þann 9. janúar í fyrra.
Segir í ákærunni að hrákinn hafi lent á hægra vanga lögregluþjónsins. Fyrir þetta var maðurinn sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni. Má maðurinn telja sig hafa sloppið nokkuð vel, eins og reyndar fleiri sem beita lögreglumenn ofbeldi, en hámarksrefsing fyrir brot gegn valdstjórninni er átta ára fangelsi. Tekið skal fram að 30 daga fangelsi, skilorðsbundið, er býsna algengur dómur fyrir brot af þessu tagi.
Í dómnum kemur fram að lögreglan hafi fyrir hádegi þann fimmtudaginn 9. janúar verið kölluð til af húsráðanda í borginni sem óskaði eftir því að lögregla fjarlægði son sinn af heimilinu vegna ölvunarástands hans og framkomu. Maðurinn var handjárnaður og er lögreglumenn héldu honum á milli sín sneri maðurinn höfði sínu að öðrum lögreglumanninum og hrækti á hann. Brugðu lögreglumennirnir þá á það ráð að setja svokallaða hrákugrímu á manninn.
Maðurinn segist ekki muna eftir atvikum, væntanlega sökum ölvunar. Taldi hann sig þó hafa farið að tilmælum lögreglumannanna. Kom þá fram í vitnisburði lögreglumannsins að maðurinn hafi „verið með samhengislaust rugl og hrækt í hrákagrímuna,“ er honum var ekið á lögreglustöðina.
Tekist var á um munntóbaksnotkun mannsins fyrir dómi, en maðurinn hélt því fram í sinni skýrslugjöf að hann hafi fengið fyrirmæli frá lögreglumönnum um að losa sig við munntóbakslummu sem hann var með í vörinni. „Ákærði kvaðst ekki vita hvar hrákinn lenti þegar hann hrækti, en talið að hann hafi hrækt á gangstétt og hann hafi ekki ætlað að hrækja á lögreglumanninn,“ segir um vitnisburð mannsins í dómnum.
Hvorugur lögreglumannanna kannaðist hins vegar við umrædda ætluðu munntóbaksneyslu mannsins og kváðu að ekki væri venja að biðja lummaða menn að losa sig við þær við handtöku. Þá bar lögreglumönnunum saman um atvik kvöldsins og viðbrögð lögreglumannsins sem hrækt var á, en þau voru að segja við manninn: „Þú hrækir ekki á mig.“
Fram kemur í dómnum að maðurinn hefur ekki áður hlotið dóm og í því ljósi þótti 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, hæfileg refsing. Þá þarf maðurinn að greiða lögmanni sínum tæpar 700 þúsund krónur.