Knattspyrnudeild Víkings hefur samið við danska framherjann Nikolaj Hansen til næstu þriggja ára.
Niko, eins og hann er kallaður, kom til Víkings frá Val árið 2017 og hefur síðan þá verið mikilvægur hlekkur í liði Víkings. Hann á að baki 94 leiki og 28 mörk á Íslandi. Niko var lykilmaður þegar Víkingar urðu bikarmeistarar og skoraði í öllum umferðum keppninnar ef frá er talinn úrslitaleikurinn.
„Niko hefur skorað fjögur mörk í fyrstu sex leikjum Pepsi Max deildarinnar og hefur þannig átt stóran þátt í mjög ásættanlegri byrjun Víkinga í sumar,“ segir á vef Víkings.
„Hann hefur væntingar til framtíðarinnar og trúir því að á þeim þremur árum sem samningurinn nær til muni góðir hlutir gerast í Fossvoginum.“