Takmarkanir og kvaðir á ferðamenn sem koma til Svíþjóðar frá Norðurlöndunum heyra sögunni til frá og með 31. maí næstkomandi. Það þýðir að eftir helgi verður hægt að ferðast frá Íslandi til Svíþjóðar án þess að framvísa neikvæðu PCR prófi, en að hefur verið krafa hingað til. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu sænsku ríkisstjórnarinnar í dag. „Þetta þýðir að ferðamenn frá Norðurlöndunum munu, frá og með 31. maí, ekki sæta neins konar ferðatakmörkunum,“ segir í tilkynningunni.
PCR próf kostar nú 7 þúsund krónur og er því ljóst að kostnaður við ferð til Svíþjóðar mun lækka í kjölfar tíðindanna, auk þess sem fyrirhöfn minnkar.
Áfram gilda þó takmarkanir við komu til landsins og þurfa óbólusettir sem koma frá Svíþjóð að sæta skyldusóttkví þar til niðurstaða úr seinni sýnatöku liggur fyrir. Samtals fimm eða sex dagar. Bólusettir eru þó undanþegnir þeirri kvöð og þurfa aðeins að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr landamæraskimun liggur fyrir. Oftast tekur það nokkrar klukkustundir.
Þessar fregnir eru þær nýjustu í röð upplífgandi frétta af niðurfellingu ferðatakmarkana um heim allan. Evrópusambandið tilkynnti nýverið að þeir myndu fylgja í fótspor Íslendinga og heimila takmarkalausar komur bólusettra Bandaríkjamanna. Samskonar tilkynningar frá ríkisstjórn Joe Bidens í Washingtonborg um Evrópubúa er nú beðið í ofvæni.