Ragnar Sigurðsson hefur dregið sig úr íslenska landsliðshópnum fyrir leikina þrjá sem liðið leikur á næstu dögum.
„Ragnar Sigurðsson verður ekki með landsliðinu í komandi vináttuleikjum, af persónulegum ástæðum, og hefur hann þegar yfirgefið hópinn. Ekki verður kallað á annan leikmann í hópinn fyrir leikinn við Mexíkó, en ákvörðun varðandi leikina við Færeyjar og Pólland verður tekin síðar,“ segir á Twitter síðu KSÍ.
Ragnar er án félags en hann rifti samningi sínum í Úkraínu í mars og hefur ekki spilað fótbolta síðan þá.
Fyrr í kvöld hafði Arnar Þór Viðarsson þjálfari liðsins sagt á fréttamannafundi að Ragnar hafi litið vel út á æfingu í Dallas og að planið væri að láta hann æfa meira en aðra síðar í kvöld.
Nú hefur Ragnar hins vegar yfirgefið hópinn en hann hefur verið einn besti leikmaður íslenska landsliðsins síðustu ár.
Fjöldi öflugra leikmanna leikur ekki með liðinu gegn Mexíkó um helgina í Dallas en Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Hannes Þór Halldórsson, Alfreð Finnbogason og Kári Árnason eru þar á meðal.
Ragnar Sigurðsson verður ekki með landsliðinu í komandi vináttuleikjum, af persónulegum ástæðum, og hefur hann þegar yfirgefið hópinn. Ekki verður kallað á annan leikmann í hópinn fyrir leikinn við Mexíkó, en ákvörðun varðandi leikina við Færeyjar og Pólland verður tekin síðar.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) May 27, 2021