Villareal mætti Manchester United í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í gærkvöldi. Staðan var 1-1 að lokinni framlengingu og þá tók við vítaspyrnukeppni. Alls voru teknar 22 spyrnur í ótrúlegri vítakeppni þar sem allir skoruðu nema De Gea.
Áður en vítakeppnin hófst gáfu Richard Hartis og Craig Mawson, en þeir eru í þjálfarateymi Manchester United, De Gea lista yfir leikmenn Villareal og hvar þeir skjóta venjulega í vítum. Fékk hann „svindblaðið“ með sér og geymdi það í handklæðinu segir í frétt The Sun.
De Gea varði ekkert víti og var í raun langt frá því í flestum spyrnunum. De Gea fylgdi svindlblaðinu í fyrstu spyrnunum en hann fór sína eigin leið og gegn ráðum þjálfarans þrisvar sinnum.
Moi Gomez tók sjöttu spyrnu Villareal og stóð í svindblaðinu að hann myndi skjóta í miðjuna. De Gea ákvað að fara til vinstri en þjálfararnir höfðu rétt fyrir sér og skaut Gomez á mitt markið.
De Gea sleppti því einnig að fylgja ráðum þjálfaranna í vítaspyrnu Francis Coquelin og Pau Torres. De Gea fékk þó engin ráð um hvert Geronimo Rulli myndi skjóta.