Undanfarið hefur borið nokkuð á áróðri gegn bólusetningum við COVID-19 hér á landi og einna mest kveður að slíku á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu.
Á vefmiðli Útvarps Sögu fjalla fjórar af síðustu tíu greinum um bólusetningar við COVID-19, en í öllum þeirra eru þær sýndar í heldur neikvæðu ljósi. Til að mynda hefur verið vitnað í bandarískan samsæriskenningasmið, Joseph Mercola, sem er þekktur fyrir að dreifa falsfréttum um hættur bóluefna. Vitnað er í viðtal Steve Bannon við Mercola. Steve Bannon er fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trumps og stofnandi fjölmiðilsins Breitbart. Útvarp Saga hefur eftir Mercola að setja eigi fólkið sem er á „bak við bólusetningarnar“ í „fangelsi til frambúðar.“
Í útvarpsþættinum Línan er laus sem er á dagskrá Útvarps Sögu hringja hlustendur inn og tjá skoðanir sínar. Um er að ræða ansi vinsælan þátt. Í morgun hringdi inn hlustandi, kona ein, sem hélt því fram að þeir sem fengju bóluefni við COVID-19 myndu bráðlega deyja. Þáttarstjórnandinn gerði litlar sem engar athugasemdir við þennan málflutning.
Ónafngreindur lesandi hafði samband við DV í dag vegna málsins. Lesandanum var brugðið eftir að hafa hlusta á þessa útsendingu Útvarps Sögu og sagðist áhyggjufullur yfir því að fölskum upplýsingum væri miðlað til þúsunda Íslendinga með þessum hætti, og hafði sérstakar áhyggjur af eldra fólki sem hlustar mikið á Útvarp Sögu.
Fleiri dæmi eru um áróður gegn bólefnum á Íslandi. Í vikunni fjallaði DV um andlát ungrar konu sem íslenskir samsæriskenningasmiðir hafa notað í áróður gegn bóluefnum. En samsett áróðursmynd þar sem andlát þessarar konu var notaður til að koma höggi á bólusetningar birtist í mörgum fjölmennum Facebook-hópum. Konan lést úr blóðtappa og var því haldið fram að það hefði gerst rétt eftir að hún fór í bólusetningu. En það er alrangt.
Því var haldið fram að konan hafi látist einungis fjórum klukkustundum eftir bólusetninguna. Unnusti konunnar greindi þó frá því að það væri einfaldlega rangt. Hún átti nefnilega eftir að fara í bólusetningu.
„Vil bara taka það fram að það er verið að dreifa röngum upplýsingum um [….] mína heitina. Hún var sem sagt ólétt og lést á mánudaginn [17. maí] útaf blóðtappa í lungum. Hér var sett inn áðan póstur sem sagði að hún hefði fengið bóluefni og dáið svo úr blóðtappa í heila nokkrum tímum síðar. Það er er einfaldlega rangt þar sem hún hafði ekki farið í bólusetningu.“
Læknar og aðrir vísindamenn hérlendis sem erlendis hafa varað við áróðri og falsfréttum um bólusetningar enda geti það haft alvarlegar afleiðingar ef ranghugmyndir um þessi mál breiðast út.