fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Pressan

Dularfullar árásir vekja miklar áhyggjur í Washington

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 29. maí 2021 21:00

Frá Havana. Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þetta skellur óvænt á fólki en sýnir því enga miskunn. Einkennin eru ógleði, suð fyrir eyrum og hræðilegur höfuðverkur og í verstu tilfellum heilaskaði og fötlun. Mál af þessu tagi hafa meðal annars komið upp á lúxushóteli í Moskvu, hjá bandarískum stjórnarerindrekum á Kúbu og í Kína og meira að segja á bílastæði aftan við Hvíta húsið.

Þetta vekur miklar áhyggjur innan bandaríska stjórnkerfisins og þá sérstaklega í ljósi þess að mál af þessu tagi komu upp í hjarta Bandaríkjanna, við Hvíta húsið. Einkennin hafa verið nefnd „Havanaheilkennið“ því þau komu fyrst fram hjá bandarískum stjórnarerindrekum í Havana á Kúbu en það gerðist í árslok 2016. Sjúkdómseinkennin eru þó nokkuð óljós og ástæðan fyrir þeim er einnig óljós en óttast er að nýju og óþekktu vopni sé beitt.

Samkvæmt fréttum bandarískra og alþjóðlegra fjölmiðla virðist aðallega vera um að ræða bandaríska stjórnarerindreka og starfsmenn leyniþjónustustofnana sem hafa orðið fyrir barðinu á þessum dularfullu sjúkdómi.

Frá árslokum 2016 fram í ágúst 2017 greindust rúmlega 40 bandarískir stjórnarerindrekar á Kúbu með Havanaheilkennið.  Rannsókn vísindamanna við University of Pennsylvania leiddi í ljós að 21 starfsmaður sendiráðsins í Havana hafði orðið fyrir alvarlegum heilaskaða. Í rannsókninni, sem var gerð 2018, kom fram að fólkið hafði ekki hlotið neina höfuðáverka áður en það varð fyrir þessum skaða.

Margir bandarískir stjórnarerindrekar voru fluttir frá ræðismannsskrifstofunni í Guangzhou í Kína árið 2018 eftir að þeir höfðu fengið svipuð einkenni.

2019 varð starfsmaður Hvíta hússins fyrir álíka upplifun nærri heimili sínu í Virginíu og í nóvember á síðasta ári gerðist það sama á bílastæðinu The Mall sem er bak við Hvíta húsið. Þar var það starfsmaður National Security Council, sem er öryggisráð forsetans, sem varð fyrir árás af þessu tagi.

Samkvæmt nýlegri umfjöllun New York Times þá hafa að minnsta kosti 130 tilfelli af þessum óútskýrða sjúkdómi komið upp og í mörgum tilfellum hefur fólk orðið fyrir varanlegum heilaskaða, þar á meðal bandarískir hermenn, leyniþjónustumenn og stjórnarerindrekar.

Unnið er að rannsóknum á málunum hjá utanríkisráðuneytinu, varnarmálaráðuneytinu og CIA en skort hefur á samhæfingu á milli stofnanna að sögn CNN.

Leynivopn?

Fjölmiðlar og sérfræðingar hafa mikið velt vöngum yfir hugsanlegum orsökum veikinda fólksins. Er hér um leynilegt vopn að ræða sem sendir frá sér örbylgjur eða hljóð? Eða er hér um efnavopn að ræða? Eða er einfaldlega um móðursýki að ræða þar sem mismunandi sjúkdómseinkenni eru fyrir mistök talin vera sami sjúkdómurinn.

Í skýrslu, sem var unnin fyrir bandaríska utanríkisráðuneytið, kemur fram að í mörgum tilfellum hafi líklega verið notað tæki sem sendi einhverskonar orkubylgjur. Vopn af þessu hafa verið nefnd í rannsóknum í Sovétríkjunum og á Vesturlöndum frá því á áttunda áratugnum og enn er unnið af miklum móð að rannsóknum á vopnum af þessu tagi í Kína, Rússlandi og Bandaríkjunum segir í skýrslunni. Einnig kemur fram að ef erlend ríki eða einhverjir aðilar noti vopn af þessu tagi sé það mikið áhyggjuefni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Getur hjátrúin sagt til um gestakomur?

Getur hjátrúin sagt til um gestakomur?
Pressan
Fyrir 4 dögum

Kínverskur njósnari fékk leyfi til að gefa út blaðamannaskírteini í Svíþjóð

Kínverskur njósnari fékk leyfi til að gefa út blaðamannaskírteini í Svíþjóð
Pressan
Fyrir 5 dögum

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum