DV er elsta dagblað landsins, runnið af rót Vísis. Hann var stofnaður árið 1910 sem óháð frétta- og auglýsingablað fyrir Reykvíkinga. Einar Gunnarsson stofnaði blaðið og lenti fljótlega í harðri samkeppni við Morgunblaðið, sem var í eigu kaupmanna. Lengi var Vísir síðdegisblað, sem nánast eingöngu var lesið í Reykjavík. Fjárhagur blaðsins var oft þröngur, en eigi að síður kom það stöðugt út. Fyrsta ritvélin var tekin í notkun 1923 og fyrsta hverfipressan 1934. Blaðið hallaðist að Sjálfstæðisflokknum í landsmálum á ritstjórnartíma Jakobs Möller og Kristjáns Guðlaugssonar. Samt var blaðið áratugum saman fyrst og fremst bæjarblað með heimafréttum og smáauglýsingum.
Jónas Kristjánsson varð ritstjóri árið 1967 og fór Vísir þá að fjarlægjast flokkspólitík. Blaðið varð landsblað og tekin voru upp vinnubrögð, sem tíðkuðust á erlendum fréttamiðlum. Reglubundnar skoðanakannanir hófust árið eftir. Útbreiðsla blaðsins jókst mikið áratuginn 1967-1975 og afkoma blaðsins varð mjög góð. Árið 1972 varð bylting í aðstöðu og vinnslu blaðsins, þegar offsetsmiðjan Blaðaprent var stofnuð í Síðumúla 14. Vísir átti fjórðung hlutafjár prentsmiðjunnar og setti upp skrifstofur í sama húsi, Síðumúla 14. Vaxandi ágreiningur var áfram um flokkspólitík milli ritstjórans og meirihluta stjórnar útgáfufélags Vísis.
Dagblaðið var stofnað 1975 í kjölfar átaka innan Vísis um pólitísk viðhorf. Nýja dagblaðið var til húsa við hliðina á Vísi, að Síðumúla 12. Jónas var ritstjóri Dagblaðsins og Þorsteinn Pálsson var ritstjóri Vísis. Kjallaragreinar með fjölbreyttum sjónarmiðum komu til sögunnar. Dagblaðið hóf rekstur menningarverðlauna árið 1978. Þessi blöð voru svo sameinuð aftur árið 1981 og urðu þá Jónas og Ellert B. Schram saman ritstjórar. Nafn sameinaða blaðsins var DV. Það var óháð stjórnmálaflokkum og varð strax eitt áhrifamesta blað landsins. Árið 1983 var lestur DV kominn í 64%, meðan Morgunblaðið var í 70%. DV var þá keypt jöfnum höndum um land allt.
Sérhannað blaðhús var reist fyrir DV í Þverholti 11 og fluttist fyrirtækið þangað árið 1985. Jafnframt var fyrsta tölvukerfið tekið í notkun við vinnslu blaðsins. Blaðið var fjárhagslega traust í tvo áratugi, 1981-2001, og lagði aukinn kostnað í umfangsmeiri útgáfu. Árið 2001 var blaðið síðan selt nýjum eigendum fyrir tilstilli Landsbankans á rúman milljarð króna, Óli Björn Kárason varð ritstjóri og blaðið færðist nær Sjálfstæðisflokknum að nýju. Blaðið var flutt í Skaftahlíð 24, er hafði verið innréttað sem blaðhús. Hinn nýi rekstur gekk illa og varð fyrirtækið gjaldþrota árið 2003. DV kom þá ekki út í nokkrar vikur.
Sama ár var DV endurvakið af nýjum eigendum og þá sem morgunblað undir ritstjórn Mikaels Torfasonar og Illuga Jökulssonar. Reksturinn gekk erfiðlega, enda voru smáauglýsingar að mestu horfnar og fríblöð komin til sögunnar. Til að mæta erfiðleikunum var blaðinu breytt í vikublað árið 2006. Síðan var það endurreist sem dagblað í upphafi árs 2007 í nýju útgáfufélagi undir forystu Hreins Loftssonar og tók til starfa að Brautarholti 26. Sigurjón M. Egilsson varð þá ritstjóri blaðsins. Reynir Traustason gerðist meðritstjóri Sigurjóns 1. september 2007. Í desember 2007 tók Jón Trausti Reynisson við af Sigurjóni og í kjölfarið voru ritstjórnir DV og DV.is sameinaðar. Í ágúst 2008 tók Birtingur yfir rekstur DV en Hreinn Loftsson varð aðaleigandi Birtings skömmu síðar.
Í mars 2010 var DV selt í dreift eignarhald undir forystu Reynis Traustasonar ritstjóra, Lilju Skaftadóttur og fleiri. Eftir átök í hluthafahópi sem stóðu stóran hluta árs 2014, tóku lánadrottnar félagsins það yfir.
Pressan ehf eignaðist svo stærstan hlut í DV ehf síðla árs það ár og tók formlega við stjórnartaumunum að fengnu leyfi Samkeppniseftirlitsins hinn 22. desember 2014. Útgefandi varð Björn Ingi Hrafnsson, Steinn Kári Ragnarsson var framkvæmdastjóri og ritstjórar þau Eggert Skúlason, Kolbrún Bergþórsdóttir og Hörður Ægisson viðskiptaritstjóri.
Frjáls fjölmiðlun ehf. keypti útgáfurétt DV í september 2017 og tók formlega við stjórnartaumunum 1. október 2017. Karl Garðarsson varð framkvæmdastjóri og ritstjórar blaðsins þau Sigurvin Ólafsson, Kolbrún Bergþórsdóttir og Kristjón Kormákur Guðjónsson ritstjóri DV.is. Árið 2019 tók Torg ehf í eigu Helga Magnússonar við rekstri DV og árið 2020 tók Tobba Marinósdóttir við sem ritstjóri.
• 1910 Vísir stofnaður. Einar Gunnarsson eigandi og ritstjóri
• 1914 Fréttastofusamband. Central News
• 1915 Jakob Möller eigandi og ritstjóri
• 1923 Fyrsta ritvélin.
• 1924 Páll Steingrímsson ritstjóri
• 1934 Fyrsta hverfipressan.
• 1938 Kristján Guðlaugsson ritstjóri
• 1942 Hersteinn Pálsson ritstjóri
• 1944 Ný hverfipressa
• 1961 Gunnar G. Schram ritstjóri
• 1961 Intertype-setningarvélar
• 1967 Jónas Kristjánsson ritstjóri
• 1968 Reglubundnar skoðanakannanir hefjast
• 1972 Blaðaprent. Offsetprentun. Flutt í Síðumúla
• 1972 Upplag 19.000 eintök
• 1975 DB stofnað
• 1977 Stjörnumessa
• 1978 Menningarverðlaun
• 1981 Lestur Mbl. 67%, DB 48%, Vísis 38%
• 1981 DV stofnað. DB og Vísir sameinuð. Jónas Kristjánsson og Ellert B. Schram
• 1984 Fréttaútvarpið
• 1983 Lestur Mbl. 70%, DV 64%.
• 1985 Blaðhús í Þverholti.
• 1985 Tölvukerfi, Norsk Data.
• 1987 Fréttaþjónusta Reuters.
• 1987 Ættfræðiþjónusta.
• 1998 Jónas Kristjánsson og Óli Björn Kárason ritstjórar
• 2001 DV selt. Óli Björn Kárason ritstjóri
• 2003 DV gjaldþrota. Nýir eigendur. Mikael Torfason og Illugi Jökulsson ritstjórar
• 2006 DV varð vikublað
• 2007 DV endurreist sem dagblað. Ritstjóri Sigurjón M. Egilsson. Í september sama ár varð Reynir Traustason ritstjóri við hlið hans og þá fór DV.is í loftið. Í desember sama ár tekur Jón Trausti Reynisson við af Sigurjóni sem ritstjóri.
• 2008 Rúmlega 30 þúsund manns nota DV.is vikulega í upphafi árs, en 90 þúsund í lok árs.
• 2010 DV fer í dreift eignarhald. Notendur DV.is orðnir tæplega 150 þúsund á viku.
• 2012 Notendur DV.is ná 250 þúsund á viku.
• Jón Trausti Reynisson lætur af störfum sem ritstjóri og gerist framkvæmdastjóri. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ráðin aðstoðarritstjóri.
• 2014. Deilur í eigendahóp. Hallgrímur Thorsteinsson tekur við ritstjórastól af Reyni Traustasyni. Félög undir stjórn Þorsteins Guðnasonar eignast meirihluta í félaginu. Þau selja svo Pressunni ehf sinn hlut undir lok árs.
• 2015. Björn Ingi Hrafnsson verður útgefandi og ritstjórar þau Eggert Skúlason, Kolbrún Bergþórsdóttir og Hörður Ægisson viðskiptaritstjóri.
• 2015 Haldið upp á 40 ára afmæli Dagblaðsins með sérstöku afmælisriti DV sem dreift er frítt um allt land í ritstjórn Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings.
• 2017 Frjáls fjölmiðlun ehf. keypti útgáfurétt DV í september 2017.
• 2020. Torg kaupir DV og dv.is. Tobba Marinósdóttir er ráðin ritstjóri.
• 2021. Björn Þorfinnson tekur við af Tobbu Marinósdóttur sem ritstjóri DV.
Ritstjóri og ábyrgðarmaður DV er Björn Þorfinnsson.
• Aðalheimild: Guðjón Friðriksson, Nýjustu fréttir, 2000