Þrjátíu og eins árs kona sem býr í Reykjanesbæ hefur stefnt barnsföður sínum og fyrrverandi sambýlismanni fyrir Héraðsdóm Reykjaness til sviptingar á forræði hans yfir dóttur þeirra sem þau hafa sameiginlegt forræði yfir. Gerir hún þær kröfur að hún fari ein með forræðið.
Greint er frá málinu í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu. Fólkið er frá Póllandi en konan flutti til Íslands árið 2013. Hún kynntist þessum landa sínum hér á landi árið 2016, en hann er fæddur árið 1986, og tóku þau upp sambúð það ár. Þeim fæddist dóttir sumarið 2018. Sambúðinni lauk hins vegar haustið 2019 og maðurinn flutti út af heimilinu. Þau gerðu með sér samkomulag um umgengni við dótturina fyrir sýslumanninum á Suðurnesjum þar sem kom fram að þau færu sameiginlega með forsjá barnsins, stúlkan myndi eiga lögheimili hjá móðurinni en föðurnum væri tryggð umgengni.
Allt breyttist sumarið 2020. Þá flutti maðurinn til Póllands þar sem hann býr nú, eftir því sem konan veit best. Í stefnunni segir að maðurinn hafi ekkert hirt um samband sitt við dótturina og ekkert látið heyra í sér: „Allt frá því að stefndi fluttist af landi brott hefur hann ekkert samband haft við stefnanda og veit stefnandi í raun ekkert um hagi stefnda. Í ljósi flutnings stefnda af landi brott og skorts á sambandi við hann hefur stefnandi talið sér nauðsynlegt að endurskoða samkomulag aðila um forsjá dótturinnar og leitaði stefnandi til sýslumannsins á Suðurnesjum í júní 2020 með það fyrir augum að leita sátta við stefnda um breytta skipan á forsjá barnsins, líkt og áskilið er í 33. gr. a. barnalaga. Stefndi hefur hins vegar ekki sýnt nokkurn vilja til sátta og var sáttameðferð lokið þann 26. nóvember 2020, sbr. meðfylgjandi vottorð um sáttameðferð. Því er stefnanda nauðugur einn kostur að höfða mál þetta.“
Konan telur nauðsynlegt að hún fari núna ein með forræði barnsins svo hún hafi umboð til að taka ákvarðanir um hagsmuni þess, óbundin af samþykki föðurins sem ekkert hirðir um barnið og lætur ekki vita af sér.
Manninum er því stefnt til að mæta fyrir Héraðsdóm Reykjaness þann 30. júní í sumar en þá verður málið þingfest. Ef hann mætir ekki fyrir dóm, sem verður að telja nokkuð líklegt í ljósi fyrra hátternis, má búast við því að dæmt verði í samræmi við kröfugerð móður barnsins.