fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Afhjúpun: Fjöldi fyrirtækja Guðmundar hjá Afstöðu endað í höndum útfararstjóra – „Ég var bara að bjarga annarri manneskju“

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 26. maí 2021 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Garzo ehf., félag sem stofnað var af Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni Afstöðu, félags fanga, var þann 30. apríl síðastliðinn úrskurðað gjaldþrota af Héraðsdómi Reykjavíkur. Frestur var veittur til þess að lýsa kröfum í þrotabúið og er gert ráð fyrir að skiptafundur verði haldinn 30. júlí næstkomandi, á skrifstofu skipaðs skiptastjóra búsins, Magnúsar Björns Brynjólfssonar lögmanns. Gjaldþrotaskiptin eru gerð að kröfu Frjálsa lífeyrissjóðsins.

Samkvæmt gögnum fyrirtækjaskrár var félagið stofnað 4. febrúar í fyrra og lifði því í rúmt ár, eða 451 dag. Rétt fyrir gjaldþrot félagsins var Jósef S. Brynhildarson skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins hjá fyrirtækjaskrá auk þess sem heimilisfang þess var fært yfir á lögheimili Jósefs. Jósef var árið 2019 sakfelldur fyrir kynferðisbrot.

Guðmundur Ingi Þóroddsson

Af stofngögnum Garzo ehf. að ráða var Guðmundur Ingi Þóroddsson eini eigandi félagsins. Tölvupóstfang sem skráð var á stofngögn félagsins var rakang@rakang.is, og má því ætla að Guðmundur hafi ætlað að reka tælenska veitingastaðinn Rakang Thai í Árbæ á kennitölu félagsins. Tekið skal fram að Rakang er enn í rekstri, en nú undir félaginu G66 ehf., í eigu Guðmundar.

Jósef var skráður prókúruhafi og fyrirtækið flutt á lögheimili hans aðeins nokkrum vikum fyrir gjaldþrotaúrskurð þess.

Fleiri fyrirtæki Guðmundar endað hjá Jósef

Aðkoma Jósefs að fyrirtækjarekstri er raunar síður en svo bundin við Garzo ehf. Samkvæmt upplýsingum situr Jósef í stjórn sex fyrirtækja og er prókúruhafi í þremur þeirra. Fyrirtækin eru áðurnefnt Garzo ehf., sem var í eigu Guðmundar Inga fram að gjaldþroti, Frostrós – uppbyggingarfjelag ehf., sem áður hét Útgerðarfélag Kópavogs, Azul ehf., Protus Pay ehf. sem áður hét Skaga-stúdíó ehf., Dynhvammur ehf., og Verkhús – Verktakar ehf., sem áður hét Bátaþjónustan ehf.

Azul ehf., var, líkt og Garzo ehf., stofnað af Guðmundi Inga og Þóroddi Inga Guðmundssyni, föður Guðmundar, í nóvember 2018. Tilgangur félagsins var rekstur veitingastaða og tölvupóstfangið rakang@rakang.is gefið upp í stofngögnum ásamt farsímanúmeri Guðmundar. Í apríl 2020, eða 519 dögum síðar, barst fyrirtækjaskrá tilkynning um breytingu á stjórn til fyrirtækjaskrár þar sem áðurnefndur Jósef S. Brynhildarson er gerður að stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og eina prókúruhafa félagsins. Með tilkynningunni fylgdi samningur um að Jósef S. kaupi allt hlutafé af þeim feðgum Þóroddi og Guðmundi. Engra fjárhæða er getið í samningnum. Samninginn má sjá hér að neðan.

Kaupsamningurinn er dagsettur 3. apríl 2020 og honum var skilað inn til fyrirtækjaskrár rúmri viku síðar, 11. apríl. Nokkrum vikum síðar var VSK númer fyrirtækisins afskráð sem vánúmer, en það er gert þegar virðisaukaskattsskýrslum er ekki skilað með lögbundnum hætti. Fyrirtækið var svo úrskurðað gjaldþrota 17. mars á þessu ári, aðeins nokkrum vikum áður en fyrrnefnt félag Guðmundar, Ganzo ehf., var úrskurðað gjaldþrota.

Líkindin á milli örlaga Ganzo ehf. og Azul ehf. eru fleiri, því í fyrstu voru bæði félögin skráð á heimili Guðmundar Inga, en svo rétt fyrir gjaldþrot var heimilisfang þeirra fært yfir á heimili Jósefs.

Guðmundur Ingi er þá jafnframt skráður raunverulegur eigandi Frostrósa – uppbyggingarfjelags hjá fyrirtækjaskrá. Skráðir stofnendur fyrirtækisins eru þeir Atli Guðjón Helgason, fyrrverandi fótboltamaður, Ólafur Kristinsson og lögmannsstofan Dexter Legal & Holding ehf., en í ársreikningum félagsins er Atli sagður eigandi að 33,3% hlut í félaginu og Ólafur að 66,67% hlut. Jósef kom inn í rekstur félagsins með tilkynningu sem dagsett er 15. maí á þessu ári, fyrir 11 dögum síðan, en þá varð hann varamaður í stjórn og Gísli Þráinn Kristjánsson skráður stjórnarmaður og prókúruhafi.

Í samtali við blaðamann DV segist Guðmundur Ingi hafa selt félagið Frostrósir, sem sé enn í rekstri.

Listinn lengist

Dynhvammur ehf. var stofnað í nóvember 2008 af Sveinbirni Snorrasyni sem sat einn í stjórn og var framkvæmdastjóri félagsins. Félagið skilaði inn sínum síðasta ársreikningi árið 2018 vegna ársins á undan, 2017. Í nóvember 2018 er svo fyrirtækjaskrá tilkynnt um breytingu á stjórn félagsins. Inn koma þeir Jósef S. Brynhildarson og Gísli Þráinn Kristjánsson. Uppskriftin ætti hér að verða orðin kunnugleg.

Dynhvammur ehf. var svo úrskurðað gjaldþrota í júní 2020 og er félagið þar með úr sögunni.

Fyrirtækið Protus Pay var stofnað af þeim Steinunni Hlöðversdóttur og Bergþóri Ásgrímssyni undir nafninu Skaga-Stúdíó ehf., til heimilis á Sauðárkróki, en nafninu var síðar breytt í Protus Pay ehf. og allt hlutafé fært yfir á Auði Birnu Snorradóttur. Tilgangur þess var þá að veita þjónustu á sviði rafrænna greiðslulausna fyrir fyrirtæki. Eftir nokkur ár í taprekstri hurfu þær Steinunn og Auður úr stjórn félagsins og inn komu þeir Birgir Örn Tómasson og Brynjar Tómasson. Árið 2019 fór félagið svo úr þeirra höndum og yfir á þá Jósef S. og Gísla Þráinn. Þá sömu og tóku að sér rekstur Frostrósa – uppbyggingarfjelags fyrir nokkrum dögum síðan og Dynhvamms ehf. árið 2018.

Loks er svo félagið Verkhús – Verktakar ehf., sem áður hét Bátaþjónustan. Það félag var stofnað af Karli Georgi Kjartanssyni í október 2013. Af ársreikningum félagsins frá árinu 2013 og 2014, sem eru þeir einu sem sjáanlega voru sendir inn til fyrirtækjaskrár, má greina nokkuð blómlegan rekstur, að minnsta kosti árið 2014. Rekstrartekjur félagsins námu rúmum 8 milljónum og var hagnaður félagsins um fjórðungur af því. Í janúar 2017 var fyrirtækjaskrá svo tilkynnt um breytingar á stjórn félagsins. Gunnar Rúnar Gunnarsson kom þá inn sem stjórnarmaður og Jósef S. Brynhildarson sem varastjórnarmaður.

Félagið var svo úrskurðað gjaldþrota í janúar á þessu ári.

Kynferðisafbrotamenn í útfararstjórn?

Gunnar Rúnar Gunnarsson á sér, líkt og Jósef, sögu úr réttarkerfinu. Árið 2007 var Gunnar, sem áður hét Gunnar Finnur Egilsson, dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga andlega veikri stúlku. Það var þriðji kynferðisbrotadómur hans. Þá var Gunnar hnepptur í varðhald árið 2016 fyrir tugmilljóna fjársvik og í dómi sem féll 2018 var honum gert að sæta sex mánaða fangelsisvist vegna meiriháttar skattalagabrota. Fyrir dómi þá sagðist Gunnar hafa verið svokallaður útfararstjóri sem hann vissi ekki hvað var, þar sem hann hafði verið metinn greindarskertur.

Sjá nánar: Margdæmdur fjársvikari heldur uppteknum hætti: „Hann mun aldrei hætta. Það er alveg á hreinu“

Hugtakið „útfararstjóri“ vísar í þessu tilfelli til þess „starfs“ að leppa fyrirtæki gegn greiðslu og sigla þeim í þrot. Þannig sleppa raunverulegir eigendur fyrirtækjanna við að hafa gjaldþrot þeirra á sínum skrám. Fyrirtækin eru gjarnan skuldum vafin og oft með VSK númer á válista.

Í samtali við blaðamann DV þvertók Jósef þó fyrir að vera útfararstjóri.

Aðspurður hvers vegna hann hafi tekið yfir félagið Azul ehf. úr hendi Guðmundar Inga Þóroddssonar svaraði Jósef: „Ég bara tók það yfir og þá kom í ljós að það var skuldsett.“ Að öðru leyti eru svör Jósefs við spurningum blaðamanns birt hér að neðan.

Af hverju tókstu þá yfir annað félag frá Guðmundi? [Ganzo ehf.]

Það var bara sama sagan.

Skuldum vafið?

Já.

En hvað með Verkhús?

[Jósef grípur inn í]

Ég kannast ekkert við Verkhús, nafnið mitt var sett í það án minnar vitundar.

[Innsk. blaðamanns: Jósef var skráður varastjórnarmaður í félaginu Verkhús – Verktakar ehf., en Gunnar Rúnar aðalmaður]

Þekkir þú Gunnar Rúnar sem er skráður aðalmaður?

Já. Hann er tengdur mér.

Hvað með Gísla Þráinn?

Jájá. Hann er félagi minn.

Og svo tókstu yfir Protus Pay. Hvað vakti fyrir þér þegar þú tekur það yfir?

Ekki neitt. Ég var bara að taka það yfir af annarri manneskju, til þess að bjarga annarri manneskju.

Og félagið Dynhvammur?

Það var sendibílaþjónusta og var í rekstri. Ég var skráður fyrir því fyrir aðra manneskju. Ég var ekkert sjálfur í rekstrinum.

Hvaða manneskja var það?

Það skiptir ekki máli.

Svona í sannleika sagt, þá lítur nú allt út fyrir að þú sért það sem er kallað útfararstjóri. Að þú sjáir um það hreinlega að taka óstarfhæf fyrirtæki úr höndum fólks og setja þau í þrot. Ertu útfararstjóri?

Það er bara alls ekki þannig. Með Verkhús þá komst ég bara að því að ég væri skráður þarna á fyrirtækið.

Hefurðu þegið greiðslur fyrir að taka að þér fyrirtæki og setja þau í þrot?

Aldrei þegið neinar greiðslur og hef aldrei sett neitt fyrirtæki í þrot.

Ert þú í einhverjum rekstri með þessar kennitölur?

Nei, ekki eins og er.

En það stendur til?

Ég veit aldrei hvað gerist. Það er búið að vera Covid og svoleiðis.

Hefurðu einhvern tíma þurft að svara fyrir eignarhald þitt á þessum fyrirtækjum og gjaldþrot þeirra? Eða situr þú bara heima og lætur gluggapóstinn fara í ruslið?

Það er búið að hafa samband, ég hef þurft að hitta lögfræðinga út af tveimur fyrirtækjum.

Af hverju vildu þeir hitta þig?

Þeir tóku skýrslu af mér.

Voru þeir þá að reyna að finna eignir í félögunum, eða hvað?

Já, eitthvað svoleiðis.

Var einhverjar eignir að finna?

Nei.

Þekkirðu Guðmund Inga?

Ég bara veit hver hann er, þannig séð.

Þannig að það hefur þá einhver haft milligöngu ykkar á milli um að þú tækir að þér þrjú félög í hans eigu og settir í þrot?

Ég er svona málkunnugur honum.

Jósef segist að lokum hafa undanfarið lagt vinnu í að snúa við blaðinu og hafi tekið sig á í lífinu.

Engar launaskuldir eftir

Í samtali við blaðamann sagði Magnús Björn Brynjólfsson, lögmaður og skiptastjóri Garzo ehf., að búið væri að auglýsa eftir kröfum í þrotabú félagsins í Lögbirtingablaðinu, samkvæmt reglum þar um, en hann gat ekki upplýst um hvernig þær hljómuðu. Að öðru leyti gat Magnús ekki tjáð sig um ferlið.

Guðmundur Ingi Þóroddsson segist í samtali við DV ekki hafa nýtt sér þjónustu Jósefs til þess að hagnast á henni. Hann segir félög í sinni eigu alltaf hafa staðið skil á launum. „Það eru engar launaskuldir í neinum félögum sem ég hef látið frá mér, selt eða sett í þrot.“ Guðmundur segist einfaldlega vera að minnka við sig reksturinn. „Þetta er bara búið að vera hræðilegur tími. Salan á þessum fyrirtækjum er bara liður í að draga saman seglin,“ segir hann. Hvað aðrar skuldir sem skildar voru eftir í fyrirtækjum sem hann seldi til Jósefs varðar sagði Guðmundur: „Við höfum alltaf reynt að semja um allar okkar skuldir.“

Aðspurður hvort rekstur Rakang gangi illa svarar hann játandi, en segir það sama eiga við um öll sín fyrirtæki. „Þetta er bara hræðilegur tími.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít