Hannes Þór Halldórsson markvörður Íslands síðustu ára er ekki í leikmannahópi liðsins sem nú heldur í æfingaleiki gegn Mexíkó. Færeyjum og Póllandi.
Fjöldi leikmanna er fjarverandi og eru ástæðurnar margar, meiðsli sóttkví og persónulegar ástæður. Arnar Þór Viðarsson hafði ekki ætlað sér að velja neinn úr íslenska boltanum í hóp sinn.
Þegar fjöldi leikmanna fór að draga sig út úr verkefninu var ljóst að Arnar þurfti að leita á íslenska markaðinn. Staða markvarða breyttist hins vegar ekkert og var því ákveðið að Hannes Þór yrði ekki í hópnum.
Kári Árnason átti að vera í hópnum en dróg sig út en Birkir Már Sævarsson fer með í verkefnið. „Við ræddum við alla þessa þrjá fyrir nokkrum vikum og sögðum þeim að ætlunin væri ekki að velja leikmenn frá Íslandi,“ sagði Arnar Þór á fréttamannafundi í morgun.
Ögmundur Kristinsson og Rúnar Alex Rúnarsson fara í alla leikina en Elías Rafn Ólafsson fer til Bandaríkjanna og Patrik Gunnarsson fer í verkefnin í Færeyjum og Póllandi.
„Það breyttist ekkert með markvarðarstöðuna, Ömmi gat komið og Rúnar gat komið. Það var svo alltaf ætlunin að taka tvo unga, Elías kemur með til Dallas og Patti eftir það. Markvarðarstaðan breyttist ekkert, við töluðum við Hannes bara.“
Eiður Smári Guðjohnsen var á fundinum og sagði ummæli Hannesar um málið ekki hafa verið óljós, aðeins fyrirsögn um málið sem birtist á Vísir.is.
„Mér fannst það ekkert óljóst, fyrirsögnin var óljós og hún gat sett spurningarmerki. Þegar þú lest greinina og það sem hann sagði, þá var þetta ljóst. Við áttum gott samtal við Hannes, við ætluðum ekki að velja leikmenn frá Íslandi.