Kári Árnason ferðast ekki með íslenska landsliðinu í verkefni gegn Mexíkó, Færeyjum og Póllandi vegna COVID-19. Kári er í áhættuhópi þegar kemur að veirunni, hann er með astma og veiran gæti haft slæmt áhrif á hann þegar kemur að frammistöðu innan vallar. Hann ákvað því að draga sig út úr landsliðshópnum í gær.
ÍSÍ og KSÍ hafa reynt að fá undanþágu í bólusetningu en hingað til hefur það litlum árangri skilað. Umræðan um forgang í bólusetningu spratt upp þegar í ljós kom að Daði Freyr Pétursson og hljómsveit hans fengu undanþágu í bólusetningu, hljómsveitin tók þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Málið vakti furðu enda hafði Þórólfur Guðnason talað eins og slíkar undanþágur væru svo til óhugsandi.
„Það var lögð inn beiðni um bólusetningu til yfirvalda, ég veit það. Það er eitthvað sem framkvæmdarstjóri og formaður leggur inn, það tókst ekki,“ sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari í samtali við 433.is í morgun.
Kári útskýrði mál sitt í gær en Arnar segir ákvörðun hans mjög eðlilega. „Það var spurning um bólusetningu og tryggingar, eftir að hafa fengið svör við þessu öllu ákvað Kári í gær að draga sig út. Það var ekki þess virði fyrir hann að taka þátt í þessu verkefni.“
Arnar hefur sína skoðun á því að íþróttafólk njóti ekki sama forgangs og hljómsveit sem þarf að ferðast í alþjóðlega keppni. Íslensku landsliðin fá ekki að sitja við sama borð.
„Ég hef mínar skoðanir á því, ég hef verið spurður að þessu í Belgíu líka. Ég veit að belgíska landsliðið er allt bólusett núna fyrir Evrópumótið, að sjálfsögðu vil ég sem þjálfari fá þessa undanþágu og allir væru þá bólusettir. Helst frá Johnson & Johnson sem er bara ein sprauta.“
Arnar efast þó ekki um að vinnan í heilbrigðisráðuneytinu sé með eðlilegum hætti og þar sé fólk að gera sitt besta.
„Þetta er mín skoðun, það er bara eðlileg skoðun. Að allir gætu komið með og allir farið aftur heim til sín án þess að þurfa að fara í sóttkví, ég hef engar efasemdir samt um það að það er fólk í ráðuneytinu sem veit miklu meira um þetta en ég og vita hvert bóluefnið eigi að fara. Ég ræð ekkert við þetta.“