Undanfarið hefur áhorfendum verið hleypt á vellina á Englandi og hafa þessir prufuviðburðir reynst afar vel en aðeins hafa greinst um 15 tilfelli af Covid-19 af þeim 58. þúsund áhorfendum sem hafa fengið að mæta á þessa prufuviðburði.
Á úrslitaleik Leicester og Chelsea í FA bikarnum sem fram fór á Wembley fengu rúmlega 21. þúsund manns að koma á völlinn og þar greindist enginn með veiruna skæðu.
Þar sem þetta hefur gengið svo vel segir í frétt Evening Standard að það gæti vel farið svo að setið verði í öllum sætum á Wembley á EM í sumar en völlurinn tekur um það bil 90. þúsund áhorfendur.
England spilar leiki sína á heimavelli á EM í sumar og leika þeir í riðli með Króatíu, Skotlandi og Tékklandi. Þá verða báðir undanúrslitaleikirnir og úrslitaleikur EM spilaður á Wembley.
Búist var við því að aðeins yrði fjórðungur hámarksáhorfendafjölda leyfður á EM í sumar eða um 22.500 manns en þessar fréttir munu eflaust gleðja stuðningsmenn um allan heim og sérstaklega Breta.