Það hefur gustað um Stjörnuna í Garðabæ í upphafi sumars en þjálfari liðsins sagði upp störfum og efnilegasti leikmaður félagsins var seldur til Breiðabliks.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar til átta ára sagði upp störfum eftir fyrstu umferðina í deildinni, sambandsörðugleikar við stjórn félagsins er sögð hafa spilað þar stóra rullu.
Sölvi Snær Guðbjargarson sem stjórnin hafði viljað hafa upp í stúku vegna samningamála var ein af ástæðum þess að Rúnar sagði upp, hann ku hafa verið skammaður fyrir að hafa notað Sölva í fyrsta leik og Rúnar gekk á dyr.
Eftir að Rúnar hafði sagt upp störfum var Sölvi Snær seldur til Breiðabliks og fór það ekki vel í stuðningsmenn Stjörnunnar.
Öll þessi læti utan vallar virðast hafa haft áhrif innan vallar en Stjarnan situr á botni deildarinnar eftir sex leiki, liðið er með tvö stig og hefur skorað tvö mörk. Stjarnan er þekkt fyrir að berjast á toppi deildarinnar.
Brynjar Gauti Guðjónsson varnarmaður liðsins var spurður út í þetta í viðtali við Vísir.is í gær. „Það er allskonar vitleysa búin að vera í gangi sem tengist fótbolta ekki neitt. En við höfum ekkert látið það trufla okkur inni á vellinum,“ sagði Brynjar Gauti um stöðu mála í Garðabænum við Vísi.
Staða liðsins í deildinni bendir þó til þess að öll vitleysan utan vallar hafi haft veruleg áhrif innan vallar. „Hlutverk okkar leikmannanna er alltaf það sama og við höfum þann metnað sem hópur, og hver og einn persónulega, að við erum ekkert að láta þetta trufla okkur eða hafa áhrif á hvernig við mætum í leikina.“