Það voru vísindamenn hjá London School of Hygiene & Tropical Medicine og Durham University sem gerðu rannsóknina í samstarfi við góðgerðasamtökin Medical Detection Dogs. 3.500 lyktarsýni, sem almenningur og heilbrigðisstarfsfólk hafði gefið, voru notuð við rannsóknina.
Hundarnir fundu þau sýni, sem voru frá fólki sem var með COVID-19, í 94,3% tilfella. Lítil hætta var á að þeir gerðu mistök.
Sex hundar tóku þátt í þeim hluta rannsóknarinnar þar sem hvorki þeir né vísindamennirnir vissu hvaða lyktarsýni voru frá smituðu fólki. Hundarnir reyndust geta greint þau sýni rétt sem voru úr fólki sem var einkennalaust og fólki með einkenni sjúkdómsins. Þetta átti bæði við um sýni sem innihéldu mikið af veirunni og þau sem innihéldu lítið af henni.
Sky News segir að niðurstöður rannsóknarinnar sýni að hægt sé að nota hunda á flugvöllum og í höfnum til að leita að smituðu fólki. Tveir hundar geti afgreitt 300 manns á hálfri klukkustund.