Lokaumferðin í Serie A á Ítalíu kláraðist í dag. Hér má sjá yfirferð yfir það helsta sem gerðist.
Juve náði í Meistaradeildarsætið – Napoli situr eftir
Milan vann Atalanta á útivelli. Franck Kessie skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu rétt fyrir leikhlé.
Juventus vann stórsigur á Bologna á útivelli. Federico Chiesa kom þeim yfir á 6. mínútu. Alvaro Morata tvöfaldaði forystu Juve eftir hálftíma leik. Adrien Rabiot skoraði svo þriðja mark gestanna rétt fyrir leikhlé. Morata gerði annað mark sitt og fjórða mark Juve í upphafi seinni hálfleiks. Riccardo Orsolini klóraði í bakkann fyrir heimamenn í lok leiks. Þess má geta að Andri Fannar Baldursson kom inn á sem varamaður fyrir Bologna á 80. mínútu. Cristiano Ronaldo var allan tímann á varamannabekk Juve.
Napoli missteig sig á heimavelli gegn Verona. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Amir Rrahmani kom Napoli yfir eftir rúman klukkutíma leik en Marco Davide Faroni jafnaði fyrir Verona skömmu síðar.
Úrslitin þýða að Milan, Atalanta og Juventus fylgja Inter í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Napoli þarf að láta sér Evrópudeildarsæti að góðu verða.
Roma skreið inn í Evrópu
Roma rétt náði Evrópusæti með því að gera jafntefli við Spezia. Þeir lentu 2-0 undir í fyrri hálfleik. Daniele Verde og Tommaso Pobega skoruðu mörk Spezia. Stephan El Shaarawy minnkaði muninn fyrir Roma snemma í seinni hálfleik og Henrikh Mkhitaryan jafnaði seint í leiknum.
Sassuolo vann Lazio 2-0 með mörkum frá Giorgos Kyriakopoulos og Domenico Berardi. Það dugði þó ekki til þess að ná Evrópusæti þar sem Roma náði í stig í sínum leik.
Roma endar í sjöunda sæti og fer í Sambandsdeildina, nýja Evrópukeppni. Lazio endaði í því sjötta og fylgir Napoli því í Evrópudeildina.
Hér fyrir neðan má sjá hvaða lið enduðu í sætunum sem skipta máli í Serie A tímabilið 2020-2021.
Meistaradeildarsæti
Inter, Milan, Atalanta, Juventus
Evrópudeildarsæti
Napoli, Lazio
Sambandsdeildarsæti
Roma
Fallsæti
Benevento
Crotone
Parma