Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hefur gefið fastlega í skyn að félagið muni reyna að halda Martin Ödegaard hjá félaginu. Hann tjáði sig um málið á blaðamannafundi eftir sigurleikinn gegn Brighton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Ödegaard er hjá enska félaginu á láni frá Real Madrid. Honum hefur tekist að heilla stuðningsmenn Arsenal á tíma sínum hjá félaginu. Samkvæmt lánssamningnum á milli liðanna fer leikmaðurinn aftur til Real í sumar.
,,Við erum mjög fastir á því hvað við viljum gera. Við munum eiga samtal um þetta á næstu vikum,“ sagði Arteta þegar hann var spurður út í Norðmanninn.
Ödegaard spilaði fjórtán leiki í ensku úrvalsdeildinni. Í þeim skoraði hann eitt mark og lagði upp tvö.
,,Við gerðum allt sem við gátum til þess að fá Martin til þess að standa sig fyrir félagið. Hann hefur aðlagast mjög vel að okkar leikstíl og að knattspyrnufélaginu okkar. Vonandi höfum við gefum honum von og tilfinningu um það að þetta gæti verið staðurinn fyrir hann.“
Að lokum var Arteta spurður að því hvort hann væri bjartsýnn á það að halda Ödegaard.
,,Ég veit það ekki. Þetta er ekki í okkar höndum,“ sagði stjórinn þá.