Marcus Rashford, leikmaður Manchester United, útilokar ekki að tilboð erlendis frá gæti heillað hann á einhverjum tímapunkti ferilsins. Hann segist alltaf hafa verið heillaður af Real Madrid og Barcelona.
Rashford er 23 ára gamall og kom upp úr unglingastarfinu hjá Man Utd. Hann er samningsbundinn félaginu til ársins 2023 en útilokar ekki að yfirgefa félagið einn daginn til þess að spila utan Englands.
,,Ég myndi aldrei segja aldrei,“ sagði Rashford í viðtali við The Guardian er hann var spurður út í möguleikann á því að spila í öðru landi einn daginn. ,,Ég er stór aðdáandi Real Madrid og Barcelona því þau hafa alltaf verið með góða leikmenn og spilað aðlaðandi fótbolta. Allir horfa á Real Madrid og Barcelona.“
Rashford segist hafa áhuga á að vita meira um önnur lönd og að hann ætli sér að læra bæði ítölsku og spænsku.
,,Þegar ég ólst upp var það ekki talið mikilvægt að læra önnur tungumál í skólanum. Það var ekki búist við því af þér. Fótboltinn hefur veitt mér það tækifæri að ferðast til mismunandi landa og sum lönd líkar þér vel við og vilt læra meira um. Tungumálin eru klárlega hluti af því.“