Rétt fyrir miðnætti kom lögreglan að ölvuðum manni liggjandi utandyra með leiguhlaupahjól sér við hlið í Vesturbæ Reykjavíkur. Segir í tilkynningu lögreglu að maðurinn hafi verið alblóðugur í andliti, efri vör hans bólgin og tvær tennur brotnar. „Sjúkrabifreið kom á vettvang og hlúði að manninum en hann vildi ekki fara með þeim á Bráðadeild,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Þetta er ekki fyrsta tilkynningin um rafskútuslys sem berst lögreglu, og raunar ekki sú eina í gærkvöldi, því aðeins 4 mínútum eftir að lögreglan var kölluð til vestur í bæ var tilkynnt um eins slys í Hafnarfirði. Féll þar kona af rafhlaupahjóli. Konan hlaut höfuðhögg við fallið og missti meðvitund auk þess sem blæddi úr höfði hennar.
Þriðja rafskútuslysið í nótt var svo tilkynnt í Vesturbænum klukkan hálf fjögur, en engin meiðsl á fólki voru bókuð í dagbók lögreglu.
Einn var gripinn á nagladekkjum í borginni í nótt og verður sektaður. Sektin á hvert dekk er 20 þúsund krónur. Þá voru nokkrir handteknir vegna ölvunaraksturs og ölvunar á almannafæri. Voru sumir þeirra vistaðir í fangageymslu sökum ástands.