Chelsea hefur endurvakið áhuga sinn á Declan Rice, miðjumanni West Ham. Þeir gætu notað framherjann Tammy Abraham upp í tilboð. Telegraph greinir frá.
Chelsea hefur margoft verið orðað við Rice síðustu ár. Þegar Frank Lampard var við stjórnvölinn var talið líklegast að miðjumaðurinn færi þangað. Áhuginn virtist aðeins minnka með komu Thomas Tuchel til félagsins.
Nú er hins vegar talið að Chelsea sé aftur farið að horfa til Rice. Tuchel er sagður opinn fyrir því að senda Abraham í skiptum yfir til West Ham. Framherjinn er alls ekki inni i myndinni hjá stjóranum.
Það kom fram á dögunum að Manchester United hafi bæst við í kapphlaupið um Rice en þó er hann sjálfur talinn áhugasamastur um það að fara í Chelsea. Hann kom einmitt til West Ham úr unglingastarfi Chelsea þegar hann var 15 ára gamall árið 2014.